Ekki léttist lífróður leikmanna HK fyrir tilverurétti sínum í Olísdeild kvenna í dag þegar þeir töpuðu fyrir Selfossi með 13 marka mun, 31:18, í 15. umferð deildarinnar. Leikið var í Kórnum og var Selfoss 10 mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 18:8.
Cornelia Hermansson markvörður Selfoss fór á kostum í leiknum og lék leikmenn HK afar grátt hvað eftir annað. Hermansson varði ríflega annað hvert skot sem barst á mark hennar.
Sigurinn er Selfossliðinu afar dýrmætur. Liðið hefur þar með sex stig þegar sex umferðir eru eftir, fjórum stigum fyrir ofan HK, og stendur auk þess betur að vígi í innbyrðis leikjum.
Selfoss og HK mætast aftur á þriðjudagskvöldið og þá í átta liða úrslitum Poweradebikarkeppninnar.
Mörk HK: Embla Steindórsdóttir 6, Dagmar Guðrún Pálsdóttir 4, Aníta Eik Jónsdóttir 3, Jóhanna Lind Jónasdóttir 1, Sóley Ívarsdóttir 1, Amelía Laufey Gunnarsdóttir 1, Alfa Brá Hagalín 1, Leandra Náttsól Salvamoser 1.
Varin skot: Ethel Gyða Bjarnasen 4, 25% – Margrét Ýr Björnsdóttir 2, 9,5%.
Mörk Selfoss: Katla María Magnúsdóttir 8/5, Roberta Stropé 5, Arna Kristín Einarsdóttir 5, Karlotta Óskarsdóttir 3, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir 3, Rakel Guðjónsdóttir 2, Adela Eyrún Jóhannsdóttir 1, Kristín Una Hólmarsdóttir 1, Hulda Hrönn Bragadóttir 1, Tinna Soffía Traustadóttir 1.
Varin skot: Cornelia Hermansson 19/2, 54,3% – Áslaug Ýr Bragadóttir 1, 33,3%.