Gísli Þorgeir Kristjánsson og félagar í þýska meistaraliðinu SC Magdeburg eru komnir í undanúrslit í þýsku bikarkeppninni eftir sigur á THW Kiel, 35:34, eftir framlengdan leik sem fram fór í Kiel. Þar með tókst Magdeburg að einhverju leyti að hefna fyrir tapið í úrslitum bikarkeppninnar fyrir ári síðan.
Gísli Þorgeir skoraði þrjú mörk og gaf átta stoðsendingar. Stýrði hann leik Magdeburg af miklum myndugleika.
Magdeburg var fimm mörkum yfir í hálfleik, 19:14. Níu mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma var liðið með sex marka forskot, 29:23. Eftir það stíflaðist sóknarleikur liðsins. Leikmenn Kiel gengu á lagið og jöfnuðu metin. Magnus Landin skoraði 29. mark Kiel úr vítakasti eftir að leiktíminn var úti.
Vel fór á því að Lucas Meister skoraði 35. mark Magdeburg.
Leikurinn kann að hafa reynst Magdeburg dýr því danski línumaðurinn Magnus Saugstrup meiddist á hné í leiknum. Óttast er að meiðslin kunni að vera alvarleg.
Í fjarveru Ómars Inga Magnússonar, sem er meiddur, var Hollendingurinn Kay Smits markahæstur hjá Magdeburg með 9 mörk, þar af 5 úr vítaköstum auk fimm stoðsendinga. Tim Hornke og Matthias Musche skoruðu 5 mörk hvor. Hjá Kiel var Svíinn Eric Johansson markahæstur með 9 mörk, Magnus Landin og Sander Sagosen skoruðu 6 mörk hvor.
Ásamt SC Magdeburg eru Rhein-Neckar Löwen, Flensburg og Lemgo komin í undanúrslit þýsku bikarkeppninnar í karlaflokki. Leikið verður til undanúrslita og úrslita í Lanxess Arena í Köln 15 og 16. apríl.