Bjarki Már Elísson og samherjar í ungverska liðinu Veszprém töpuðu fremur óvænt á heimavelli í kvöld fyrir Danmerkurmeisturum GOG, 37:36, í 11. umferð Meistaradeildar Evrópu í handknattleik. Bjarki Már skoraði tvö mörk í leiknum og hefur oft fengið úr meiru að moða en að þessu sinni.
Veszprém var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 21:19. Liðið lenti í mesta basli með spræka Dani í síðari hálfleik og var m.a. þremur mörkum undir um skeið. Undir lokin virtust Bjarki Már og félagar hafa náð vopnum sínum aftur. Þegar á hólminn var komið reyndist svo ekki vera og Emil Madsen skoraði sigurmarkið 90 sekúndum fyrir leikslok.
Madsen var markahæstur hjá GOG með átta mörk eins og Svíinn Jerry Tollbring. Petar Nenadic var atkvæðamestur hjá Veszprém eins og stundum áður. Hann skoraði átta sinnum.
Solé skoraði 12 mörk í Zagreb
PSG situr eitt í efsta sæti A-riðils með 18 stig, tveimur fyrir ofan Veszprém, eftir sigur á PPD Zagreb í Króatíu í kvöld, 33:30.
Ferran Solé hélt upp á nýjan samning sinn við PSG með því að skora 12 mörk í leiknum. David Balaguer var næstur með sex sex mörk. Rússinn Timur Dibirovar markahæstur hjá Zagreb með 10 mörk.
Loksins hjá Porto
Porto hefur ekki átt góðu gengi að fagna í Meistaradeildinni á leiktíðinni. Leikmenn létu þá staðreynd ekki slá sig út af laginu í kvöld heldur gerðu sér lítið fyrir og lögð Dinamo Búkarest, 32:23, á heimavelli. Þetta var fyrsti sigur Porto í 11 leikjum í deildinni í vetur.
Nikolaj Læsø og Jack Thurin skoruðu sjö mörk hvor fyrir Porto. Ante Kuduz skoraði sex mörk fyrir Dinamo.
Aðeins var leikið í A-riðli Meistaradeildar í kvöld.