Hörður vann sitt annað stig í Olísdeild karla í handknattleik með jafntefli við ÍR, 30:30, í íþróttahúsinu á Torfnesi í dag. Samkvæmt textalýsingu vísis frá leiknum varði Brasilíumaðurinn Emanuel Augusto Evengelista skot frá ÍR-ingnum Friðrik Hólm Jónssyni skömmu áður en leiktíminn var úti. Skömmu áður hafði José Esteves Neto jafnað metin fyrir Hörð.
ÍR er í næst neðsta sæti deildarinnar með sex stig, fjórum stigum fyrir ofan Hörð.
Hörður var með tveggja marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 15:13, eftir að liðsmenn léku á als oddi framan af og voru með allt upp í sex marka forystu.
Í upphafi síðari hálfleiks var Harðarliðið fyrir áfalli þegar Leó Renaud-David braut af sér og mátti sitja utan vallar það sem eftir var af leiknum.
ÍR-ingar létu ekki hug falla þótt á brattann væri að sækja. Þeir söxuðu á forskot Harðar jafnt og þétt. Úlfur Gunnar Kjartansson kom ÍR yfir í fyrsta sinn, 24:23, þegar 11 mínútur voru til leiksloka. Upp úr því komst ÍR þremur mörkum yfir, 27:24 þegar átta mínútur voru til leiksloka. Þá tók Carlos Santos þjálfari Harðar leikhlé og endurskipulagði leik sinna manna með þeim árangri að þeim tókst að krækja í annað stigið.
Mörk Harðar: Suguru Hikawa 6, Mikel Amilibia Aristi 5, Leó Renaud-David 4, Daníel Wale Adeleye 3, Guntis Pilpuks 3, Jón Ómar Gíslason 3, Victor Iturrino 2, José Esteves Neto 2, Óli Björn Vilhjálmsson 1, Axel Sveinsson 1.
Varin skot: Rolands Lebedevs 7, Emannuel Evangelista 1.
Mörk ÍR: Dagur Sverrir Kristjánsson 11, Viktor Sigurðsson 6, Sveinn Brynjar Agnarsson 5, Friðrik Hólm Jónsson 3, Úlfur Gunnar Kjartansson 3, Róbert Snær Örvarsson 1, Arnar Freyr Guðmundsson 1.
Varin skot: Ólafur Rafn Gíslason 12.
Staðan í Olísdeild karla.