- Auglýsing -
„Ég nýtti mínar mínútur vel. Fékk fjórar eða fimm mínútur og skorað tvö mörk,“ sagði Kristján Örn Kristjánsson, Donni, sem lék sinn fyrsta leik á heimsmeistaramóti A-liða og skoraði sín fyrstu mörk í sigri Íslands á Marokkó í lokaleiknum í F-riðli heimsmeistaramótsins, 31:23, í New Capital Sport Senter í Kaíró.
„Guðmundur þjálfari stillti bara upp fyrir mig í leikhléinu og ég nýtti tækifærin og er ánægður með það. Maður vill alltaf leika með en ég er ánægður með það sem ég gerði. Vonandi hef ég stimplað mig inn með þessa sýningu,“ sagði Donni þegar handbolti.is hitti hann stuttlega að máli eftir leikinn.
Donni átti einnig eina línusendingu sem rataði ekki rétta leið. „Jú, ég sendi á Odd en hann greip ekki. Hann átti að gera það,“ sagði piltur léttur í bragði eftir sinn fyrsta stórleik.
Spurður hvort hann hafi vitað þegar hann fór að sofa hvort hann yrði í byrjunarliðinu í dag sagðist hann hafa grunað það en ekki haft vissu fyrir því.
„Það var aðeins látið á mig reyna á æfingunni í gær svo ég hafði ákveðnar grunsemdir. Maður vonar alltaf en þegar það var staðfest þá var ég mjög ánægður inn í mér,“ sagði Kristján Örn Kristjánsson, Donni, fimmti HM-nýliði Íslands á þessu heimsmeistaramóti.
- Auglýsing -