„Þetta var alveg geðveikt að koma inn í þess stemningu og fá traustið til þess að spila í 30 mínútur. Það var meira en ég bjóst við,“ sagði Stiven Tobar Valencia sem sem lék sinn fyrsta landsleik á heimavelli í dag og átti hreint frábærar 30 mínútur í sigurleiknum á Tékkum, 28:19, í Laugardalshöll í undankeppni EM í handknattleik karla.
Stiven átti stórleik í bakverðinum í vörn og varð þess valdandi að svo virtist sem örvhenta skytta Tékka væri á bak og burt. Til viðbótar skoraði Stiven sín tvö fyrstu mörk fyrir landsliðið.
„Ég fór með engar væntingar inn í leikinn um leiktíma. Þegar á hólminn var komið þá varð maður bara að standa sig, bara að taka slaginn og fá alla áhorfendur með sér. Ég er bara stoltur að geta lagt mitt að mörkum,“ sagði Stiven sem var hvers manns hugljúfi eftir leikinn. Hann hafði ekki undan að sinna áhorfendum sem vildi eiginhandaráritanir og myndir af sér með pilti sem unnið hefur hug og hjörtu stuðningsmanna landsliðsins með geislandi framkomu og gleði sinni.
„Maður fann fyrir stemningunni strax og maður kom inn í salinn fyrir leikinn. Þetta er alveg nýtt fyrir mér en ég tek alveg við þessu öllum saman enda er það hluti af því að vera í landsliðinu og handboltanum. Stuðningurinn var frábær og þess vegna var ekkert annað í stöðunni fyrir mig og okkur í liðinu en að standa okkur. Við vissum að við værum betri en leikurinn á miðvikudaginn sýndi,“ sagði Stiven Tobar Valencia nýjasti landsliðsmaður Íslands í handknattleik.