- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Gísli Þorgeir atkvæðamikill að vanda – úrslit dagsins í Þýskalandi

Gísli Þorgeir Kristjánsson leikmaður Magdeburg. Mynd/SC Magdeburg
- Auglýsing -

Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði sex mörk og var næst markahæstur hjá SC Magdeburg í dag þegar liðið vann neðsta lið þýsku 1. deildarinnar, Hamm-Westfalen, 36:27, á útivelli. Sigurinn var öruggur og m.a. munaði átta mörkum að loknum fyrri hálfleik, 16:8.


Hollendingurinn Kay Smits var markahæstur hjá Magdeburg með níu mörk. Hann átti einnig fjórar stoðsendingar en engin stoðsending er skráð á Gísla Þorgeir sem er harla óvenjulegt.
Arnór Þór Gunnarsson og félagar í Bergischer HC juku á raunir Wetzlar sem er í nokkurri fallhættu. Bergischer vann leikinn á heimavelli Wetzlar, 28:22. Arnór Þór skoraði ekki mark.

Leipzig nálgast

Hannover-Burgdorf tapaði í heimsókn sinni til Lemgo, 35:30, eftir að hafa verið undir frá upphafi leiksins. Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf sem situr í sjötta sæti deildarinnar, þremur stigum á undan Leipzig sem er á miklu skriði undir stjórn Rúnars Sigtryggssonar. Leipzig á leik inni til góða á Hannover-Burgdorf.


Erlangen, þar sem Ólafur Stefánsson er aðstoðarþjálfari, tapaði í heimsókn sinni til HSV Hamburg, 33:29.

Enn án sigurs á árinu

Fyrr í dag tapað Melsungen fyrir THW Kiel á heimavelli, 23:19. Melsungen er þar með ennþá án sigurs í þýsku 1. deildinni á árinu. Elvar Örn Jónsson skoraði þrjú mörk fyrir Melsungen og gaf eina stoðsendingu. Einnig varði hann fjögur skot í vörninni. Arnar Freyr Arnarsson skoraði eitt mark.


Niklas Landin var frábær í marki Kiel í leiknum og var með 46% markvörslu þegar leikurinn var gerður upp. Kiel var fjórum mörkum yfir eftir fyrri hálfleik, 13:9.


Melsungen er komið niður í 12. sæti eftir að hafa verið í hópi sex efstu liðanna um áramótin. Kiel heldur sig við toppinn og er núna í þriðja sæti, stigi á undan meisturum Magdeburg.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -