ÍR heldur enn í vonina um að halda sæti sínu í Olísdeild karla í handknattleik eftir sigur á Stjörnunni, 28:27, í hörkuspennandi leik í Skógarseli í kvöld. ÍR hefur þar með 10 stig þegar liðið á þrjá leiki eftir, er stigi á eftir KA sem situr í 10. sæti og því síðasta sem tryggir áframhaldandi veru í Olísdeildinni á næsta keppnistímabili.
Ólafur Rafn Gíslason kórónaði frábæran leik sinn í markinu þegar hann varði síðasta markskot Stjörnunnar, frá fyrrverandi ÍR-ingi Björgvini Þór Hólmgeirssyni, á loka andartökum leiksins. Áður hafði ÍR tapað boltanum eftir leikhlé sem tekið var um 40 sekúndum fyrir leikslok.
ÍR-ingar voru með yfirhöndina í leiknum frá byrjun. Þeir voru greinilega staðráðnir í að tryggja sér stigin tvö sem í boði voru þótt sigurlíkur Stjörnunnar væri e.t.v. meiri.
Staðan var 15:13, að loknum fyrri hálfleik.
Hvaða leiki eiga KA og ÍR eftir?
- KA á eftir: FH á útivelli, Fram á heimavelli, Gróttu á útivelli.
- ÍR á eftir: Aftureldingu á útivelli, FH á heimavelli, Fram á útivelli.
- Ef svo fer að KA og ÍR endi jöfn að stigum stendur KA betur að vígi. Liðin hafa unnið sinn leikinn hvorn en markatala KA er hagstæðari.
Staðan í Olísdeild karla.
Mörk ÍR: Viktor Sigurðsson 9, Arnar Freyr Guðmundsson 7/4, Eyþór Ari Waage 5, Dagur Sverrir Kristjánsson 4, Bjarki Steinn Þórisson 2, Sveinn Brynjar Agnarsson 1.
Varin skot: Ólafur Rafn Gíslason 13/1, 32,5%.
Mörk Stjörnunnar: Leó Snær Pétursson 9, Björgvin Þór Hólmgeirsson 6, Pétur Árni Hauksson 4, Þórður Tandri Ágústsson 3, Arnar Freyr Ársælsson 2, Jóhann Karl Reynisson 1, Hergeir Grímsson 1, Gunnar Steinn Jónsson 1.
Varin skot: Sigurður Dan Óskarsson 9, 31% – Adam Thorstensen 1, 11,1%.