Tryggvi Garðar Jónsson átti stórleik með Val í kvöld gegn Göppingen í síðari viðureign liðanna í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í handknattleik. Hann greip svo sannarlega gæsina, skoraði 11 mörk í tveggja marka tapi Valsara, 33:31, í EWS Arena í Göppingen. Valur er þar með úr leik í keppninni eftir samanlagt níu marka tap í tveimur leikjum, 69:60.
Ljóst var eftir sjö marka tap á heimavelli í fyrri leiknum að róðurinn yrði þungur að snúa taflinu við í síðari leiknum í suður Þýskalandi. Valsmenn gerðu vel. Þeir geta vel við unað eftir viðureignina. Í kvöld var endapunktur að stórskemmtilegri þátttöku liðsins í keppninni, þátttöku sem er öðrum félögum til fyrirmyndar og Vals til sérstaks sóma, utan vallar sem innan.
Tólf leikir Valsmanna, þar af sex á heimavelli, hafa svo sannarlega hleypti auknu lífi í handknattleikinn hér heima og vafalaust hvatt fleiri til dáða en bara þá sem vinna í kringum Val.
Tryggvi Garðar greip tækifærið á stóra sviðinu í kvöld og dró hvergi af sér. Tryggvi Garðar reyndist leikmönnum Göppingen erfiður og sýndi svo sannarlega hvað virkilega er í hann spunnið. Vissulega gerði hann sína vitleysur einnig en frammistaðan var í heild stórkostleg.
Leikmenn Vals lögðu sig alla fram til þess að veita liði Göppingen leik þótt staðan væri erfið og möguleikarnir ekki ýkja miklir. Frá upphafi lögðu leikmenn sig fram.
Í átta liða úrslitum mætast: Sporting - Montpellier. Granolles - Flensburg. Göppingen - RK Nexe. Kadetten Schaffhausen - Füchse Berlin. Leikirnir fara fram 11. og 18. apríl.
Mörk Vals: Tryggvi Garðar Jónsson 11, Arnór Snær Óskarsson 4/2, Magnús Óli Magnússon 4, Stiven Tobar Valencia 3, Vignir Stefánsson 3, Finnur Ingi Stefánsson 2, Agnar Smári Jónsson 1, Aron Dagur Pálsson 1, Tjörvi Týr Gíslason 1, Þorgils Jón Svölu Baldursson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 12, 29,2% – Motoki Sakai 1, 20%.
Mörk Göppingen: Jaka Malus 6, Marcel Schiller 5, Tobias Ellebæk 5, Kresimir Kozina 4, Blaz Blagotinsek 3, Jon Lindnchrone Andersen 2, Josip Sarac 2, Till Hermann 2, Kevin Gulliksen 1, Axel Goller 1, Sebastian Heymann 1, Tim Knuele 1.
Varin skot: Daniel Rebmann 11, 37,9% – Marin Sego 2, 14,3%.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í EWS Arena í textalýsingu hér fyrir neðan.