„Það er súrt að vera í þremur jöfnum leikjum í milliriðli og hafa ekki náð að vinna neinn þeirra,“ sagði Bjarki Már Elísson markahæsti leikmaður Íslands á HM2021 í handknattleik í samtali við handbolta.is í eftir leikinn við Norðmenn í kvöld, lokaleik íslenska landsliðsins á mótinu.
„Í öllum leikjunum höfum við fengið færin til þess að koma okkur inn í leikina. Andstæðingurinn hefur svo sem líka verið að klikka í góðum færum. Á heildina litið verðum við að gera betur í að halda okkur lengur inn í leikjunum en við höfum gert. Missa ekki alltaf andstæðinginn langt fram úr okkur og þurfa stöðugt að vera að elta. Það er svekkjandi að nýta ekki tækifærin,“ sagði Bjarki Már ennfremur.
Beðinn um að líta yfir mótið í heild sagði Bjarki Már. „Ég held að það sé fínt fyrir okkur að sjá að það er ekki svo langt í þá bestu. Með fullskipað lið eigum við möguleika á að komast aðeins lengra. Kannski hengdu menn aðeins haus eftir tapið í fyrsta leiknum við Portúgal, fannst strax þá að við myndum ekki ná markmiðum okkar. Þótt Portúgalsleikurinn hafi tapast þá vorum við áfram með góða möguleika. Svo vantaði kannski meiri trú á hlutina. Yngri strákarnir sjá það núna að með fullskipuðu liði erum við ekkert langt á eftir þeim bestu.“
„Þegar öllu er á botninn hvolft þá fannst mér við hafa nógu gott lið til þess að vinna alla leikina í milliriðli. Fyrsti leikur okkar í mótinu var sá slakasti. Með meiri reynslu og betri færanýtingu þá getum við örugglega náð mjög langt,“ sagði Bjarki Már Elísson, landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is í Kaíró í kvöld.