- Auglýsing -
- Auglýsing -

Stór áfangi hjá kvennalandsliðinu – færist upp í annan flokk

F.v.: Rut Arnfjörð Jónsdóttir, Elín Jóna Þorsteinsdóttir, Andrea Jacobsen, Þórey Rósa Stefánsdóttir, Þórey Anna Ásgeirsdóttir, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, Perla Ruth Albetsdóttir og Hafdís Renötudóttir. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Stór áfangi er í höfn hjá kvennalandsliði Íslands í handknattleik vegna þess að það verður í öðrum styrkleikaflokki af fjórum þegar dregið verður í riðla undankeppni EM 2024 næsta fimmtudag. Handknattleikssamband Evrópu tilkynnti í morgun hvernig raðaðist í styrkleikaflokkana. Fram til þessa hefur íslenska landsliðið verið í þriðja flokknum og jafnvel í þeim neðsta um skeið.

Ísland var síðasta í öðrum styrkleikaflokki vorið 2013 þegar dregið var undankeppni EM 2014.

„Það er mjög ánægjulegt að við höfum náð þessum áfanga. Þetta hvetur okkur öll til frekari dáða við þá vinnu sem liggur fyrir á komandi mánuðum. Nú bíðum við spennt eftir að dregið verður í riðla undankeppninnar á fimmtudaginn,“ sagði Arnar Pétursson þjálfari kvennalandsliðsins í handknattleik þegar handbolti.is færði honum gleðitíðindin.

Meiri líkur á lokakeppni EM

Sú staðreynd að íslenska landsliðið verður í öðrum styrkleikaflokki auk þess sem ljóst að að þátttökuþjóðum verður fjölgað úr 16 í 24 frá og með EM eykur mjög líkurnar á að Ísland eigi lið í lokakeppni EM 2024 sem fram fer í Austurríki, Ungverjalandi og Sviss.

Ísland var í þriðja styrkleikaflokki þegar dregið var í undankeppni EM 2022 og dróst þá á móti Svíþjóð og Serbíu úr efstu flokkunum tveimur og Tyrklandi úr fjórða flokki. Síðan hefur Tyrkland einnig unnið sig upp einn flokk.

Færri ljón í veginum

Kosturinn við að vera í öðrum styrkleikaflokki er m.a. sá að þannig kemst íslenska liðið hjá því að dragast í riðil með landsliðum sem hafa verið lítið eitt sterkari og hafa verið ljón á vegi landsliðsins að lokakeppni stórmóta. Má þar m.a. nefna Serbíu, Slóveníu, Tékkland og Norður Makedóníu.

Áfram eru þó varhugaverð landslið í þriðja flokki. Má þar nefna Portúgal, Úkraína, Tyrkland og Ítalía sem eru í talsverðri sókn. Úkraína tekur til að mynda þátt í HM síðar á þessu ári.

Tuttugu fara áfram

Dregið verður í átta fjögurra lið riðla undankeppninnar sumardaginn fyrsta. Undankeppnin hefst í október og stendur yfir fram í apríl á næsta ári. Tvö efstu lið hvers riðils komast áfram í lokakeppnina auk fjögurra liða sem hafna í þriðja sæti.

1.styrkleikaflokkur: Frakkland, Danmörk, Þýskaland, Holland, Svíþjóð, Spánn, Svartfjallland, Króatía.
2. styrkleikaflokkur: Rúmenía, Slóvenía, Serbía, Pólland, Tékkland, Norður Makedónía, Slóvakía, Ísland.
3. styrkleikaflokkur: Portúgal, Úkraína, Tyrkland, Ítalía, Færeyjar, Litáen, Grikkland, Kósovo.
4. styrkleikaflokkur: Ísrael, Finnland, Lúxemborg, Bosnía, Lettland, Aserbadsjan, Búlgaría.

Fréttin hefur verið uppfærð.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -