- Auglýsing -
- Elín Jóna Þorsteinsdóttir, landsliðsmarkvörður, varði 11 skot, 27%, í marki Ringkøbing Håndbold í sigurleik í heimsókn til Skanderborg Håndbold, 33:31, í umspili neðstu liðanna í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik kvenna í gær. Fimm lið leika í einum riðli um að forðast neðsta sæti og mæta sigurliði umspilsins í 1. deild. Steinunn Hansdóttir skoraði ekki mark fyrir Skanderborg Håndbold. Ringkøbing Stendur vel að vígi í umspilinu sem er rétt nýlega hafið.
- Daníel Freyr Andrésson varði fimm skot, 25%, þann tíma sem hann stóð í marki Lemvig í gær í þriggja marka tapi á heimavelli fyrir Mors-Thy í fyrstu umferð í umspili neðstu liðanna í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik karla, 29:26.
- Bjarki Már Elísson og samherjar hans í Telekom Veszprém töpuðu fyrir Pick Szeged, 30:28, í uppgjöri tveggja efstu liðanna í ungversku 1. deildinni í handknattleik í gær. Bjarki skoraði ekki mark í leiknum. Þetta var fyrsta tap Telekom Veszprém í deildinni í vetur og getur haft veruleg áhrif á hvort liðanna verður deildarmeistari og fær þar með heimaleikjarétt mætist liðin í úrslitum um ungverska meistaratitilinn sem er afar sennilegt. Pick Szeged hefur tapað tveimur stigum í deildinni en Telekom Veszprém þremur. Flest liðin í ungversku 1. deildinni eiga eftir fimm leiki.
- Fullyrt er að Norður Makedóníumaðurinn Filip Taleski gangi til liðs við Benfica í sumar frá Vardar Skopje. Benfica tapaði stigi í heimsókn til Aguas Santas í portúgölsku 1. deildinni í karlaflokki í gær, 26:26. Þar með stendur Porto best liða að vígi í deildinni, er stigi á undan Benfica sem varð meistari á síðasta ári.
- Michael Roth hefur verið ráðinn þjálfari hins fornfræga liðs, TV Großwallstadt, frá og með sumrinu þegar undirbúningur hefst fyrir næstu leiktíð. Íhlaupaþjálfari hefur stýrt TV Großwallstadt síðan í febrúar þegar Igor Vori hrökk úr skaptinu en Vori tók við á síðasta sumri. Roth hefur víða komið við á ferli sínum sem þjálfari. Hann er um þessar mundir þjálfari Bregenz í Austurríki.
- Auglýsing -