Íslenska landsliðið í handknattleik karla vann öruggan sigur á eistneska landsliðinu, 30:23, í síðasta leiknum í undankeppni Evrópumótsins í handknattleik karla í Laugardalshöll í dag. Um leið tryggði íslenska landsliðið sér efsta sæti riðilsins með 10 stig í sex leikjum, eins og Tékkar sem unnu Ísrael, 27:24.
Íslenska landsliðið stendur betur að vígi í innbyrðisleikjum og hreppir þar með efsta sætið og vonandi sæti í efsta styrkleikafloki þegar dregið verður í riðla EM 10. maí í Düsseldorf.
Íslenska landsliðið lék frábærlega í fyrri hálfleik og gerði þá má segja út um leikinn. Varnarleikurinn var framúrskarandi og markvarslan einnig. Viktor Gísli Hallgrímsson var með liðlega 50% hlutfallsmarkvörslu í fyrri hálfleik. Upp úr góðri vörn og markvörslu fékk íslenska liðið fjölda hraðaupphlaupa. Staðan í hálfleik var 17:10.
Framan af síðari hálfleik lék íslenska liðið einnig vel og var mest með níu marka forskot. Þegar á leið dró aðeins úr ákafanum. Talsvert var einnig um skiptingar enda fengu allir leikmenn að koma við sögu. Sigurinn var aldrei í hættu. Til þess var getumunurinn of mikill á liðunum.
Nú að bíða þess að dregið verður í riðla EM. Það verður gert 10. maí, en skipulagðir Íslendingar geta farið að huga að för til München í janúar á næsta ári. Ljóst er að íslenska landsliðið leikur í Ólympíuhöllinni þrjá fyrstu leiki sína í keppninni.
Mörk Íslands: Bjarki Már Elísson 8, Kristján Örn Kristjánsson, Donni, 5, Sigvaldi Björn Guðjónsson 4, Óðinn Þór Ríkharðsson 3, Stiven Tobar Valencia 3, Elvar Ásgeirsson 2, Gísli Þorgeir Kristjánsson 2, Janus Daði Smárason 1, Elliði Snær Viðarsson 1, Teitur Örn Einarsson 1.
Varin skot: Viktor Gísli Hallgrímsson 15, 40,5% – Björgvin Páll Gústavsson 2, 66,6%.
Mörk Eistlands: David Mamporia 5, Markus Viitkar 4, Mihkel Löpp 4, Ott Varik 3, Dener Jaanimaa 2, Martin Johannson 2, Hendrik Koks 2, Andris Oolup 1.
Varin skot: Rasmus Ots 15, 34%, Madis Valk 0.
Handbolti.is var í Laugardalshöll og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.