- Auglýsing -
- Aron Pálmarsson sneri til baka í lið Aalborg Håndbold í gær eftir meiðsli og lék afar vel þegar liðið vann Kolding, 28:26, í Kolding í fjórðu umferð annars riðilsins í átta liða úrslitum dönsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik í gærkvöld. Aron skoraði fimm mörk og átti eina stoðsendingu í leiknum. Með sigrinum tryggði Aalborg Håndbold sér sæti í undanúrslitum um danska meistaratitilinn þótt tvær umferðir séu eftir af riðlakeppnini. Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari Aalborg Håndbold út keppnistímabilið en þá tekur hann við þjálfun TTH Holstebro.
- Skjern er í efsta sæti riðilsins sem Aalborg Håndbold á sæti í. Skjern vann Ribe-Esbjerg í Esbjerg í gærkvöld, 29:21. Elvar Ásgeirsson var markahæstur hjá Ribe-Esbjerg með sex mörk og fjórar stoðsendingar. Ágúst Elí Björgvinsson var í marki liðsins nær allan leikinn. Hann varði átta skot, 25%. Arnar Birkir Hálfdánsson var ekki í leikmannhópi Ribe-Esbjerg að þessu sinni fremur en í síðustu leikjum.
- Lærisveinar Halldórs Jóhanns Sigfússonar í Holstebro unnu Lemvig, 25:23, í umspili um að forðast fall úr dönsku úrvalsdeildinni í karlaflokki. Holstebro er úr allri hættu að falla úr deildinni. Lemvig rekur lestina í keppninni án stiga en á tvo leiki eftir til þess að bæta úr skák. Neðsta lið umspilsins leikur við lið úr deildinni fyrir neðan um keppnisrétt í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.
- Daníel Freyr Andrésson, markvörður, sem yfirgefur Lemvig í sumar og gengur til liðs við FH, varði sjö skot, þar af eitt vítakast þann tíma sem hann fékk að spreyta sig í marki Lemvig, 33%.
- Elín Jóna Þorsteinsdóttir var í síðasta sinn í liði Ringkøbing í gærkvöld þegar liðið vann Fredericia á upphafsstigum dönsku bikarkeppninnar í gærkvöld, 34:17. Leikurinn fór fram í Fredericia. Um er að ræða upphaf á bikarkeppni sem leidd verður til lykta á næsta vetri en vegna fjölda leikja er byrjað að grisja úr lið í tíma fyrir næsta keppnistímabil.
- Kyndill, undir stjórn Jakobs Lárussonar, tapaði öðru sinni fyrir H71 í úrslitum færeysku úrvalsdeildarinnar í handknattleik kvenna í gærkvöld, að þessu sinni, 32:27. Leikið var á heimavelli Kyndils í Höllinni á Hálsi í Þórshöfn. H71 hefur þar með tvo vinninga en Kyndill engan. Þriðja viðureign liðanna fer fram á laugardaginn. Með sigri í þeim leik tryggir H71 sér meistaratitilinn annað árið í röð.
- Auglýsing -