- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Aron Rafn fleytti Haukum áfram – skellti í lás að Varmá

Leikmenn Hauka fagna sigri með stuðningsmönnum sínum eftir sigurinn í oddaleiknum að Varmá í kvöld. Mynd/Raggi Óla
- Auglýsing -

Aron Rafn Eðvarðsson, markvörður, sá um að draga máttinn úr Aftureldingarliðinu í síðari hálfleik í oddaviðureign liðanna í undanúrslitum Olísdeildar karla í handknattleik í kvöld.

Frábær stemning – flott umgjörð

Landsliðsmarkvörðurinn fyrrverandi skellti lás og lagði þar með grunn að sigri Hauka, 23:17, sigri sem tryggði liðinu sæti í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn í oddaleiknum í hreint út sagt stórkostlegri stemningu í troðfullu íþróttahúsinu að Varmá þar sem sett var áhorfendamet á íþróttaviðburði í bæjarfélaginu. Umgjörð leiksins var Aftureldingu til sóma. Spilað var vel úr þeirri stöðu sem aðstæður í salnum buðu upp á.

Ásgeir Örn Hallgrímsson þjálfari Hauka faðmar Andra Má Rúnarsson þegar flautað var til leiksloka. Mynd/Raggi Óla

Andstæðingur Hauka verður hið óárennilega lið ÍBV en Aron Rafn markvörður lék einmitt stórt hlutverk með liðinu vorið 2018 þegar ÍBV varð Íslandsmeistari síðasti.

Afturelding var sterkari lengst af leiksins. Var með eins marks forskot í hálfleik, 11:10, eftir að Hauka skoruðu þrjú síðustu mörkin. Haukar komust í fyrsta sinn yfir í síðari hálfleik, 14:13, á 36. mínútu. Næstu tíu mínútur var leikurinn í járnum. Sóknarleikur beggja liða gekk þó erfiðlega og greinilega var þreyta farin að segja til sín.

Skellti í lás eftir vippuna

Eftir að Blær Hinriksson vippaði yfir Aron Rafn og jafnaði metin, 16:16, var markverðinum hávaxna nóg boðið. Hann skellti í lás. Munurinn jókst og vindurinn minnkaði jafnt og þétt í dekkjunum hjá Mosfellingum. Hver sóknin á fætur annarri varð erfiðari.
Aron Rafn var með 66% markvörslu í síðari hálfleik og alls 48% í leiknum.

Andri Már Rúnarsson og Aron Rafn Eðvarðsson markvörður. Mynd/Raggi Óla

Hver hefði trúað því?

Hver hefði trúað því þegar allt gekk á afturlöppunum hjá Haukum í vetur að þeir myndu leika til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn? Vafalaust ekki margir. Þegar tvær umferðir voru eftir af deildinni var óvíst hvort Haukum tækist að ná inn í úrslitakeppnina.

Vissulega féll síðan eitt og annað með þeim í einvíginu við Aftureldingu sem bætti hressilega úr skák. En í úrslit Íslandsmótsins eru leikmenn liðsins komnir.

Vonbrigði leikmanna Aftureldingar voru skiljanlega mikil. Mynd/Raggi Óla

Gæfan var ekki með í liði

Með einu til tveimur mönnum til viðbótar hefði Afturelding farið í úrslit. Sama mætti segja ef gæfuhjólið hefði verið með liðinu í rimmunni við Hauka þá hefðu Mosfellingar ekki staðið í þeim sporum sem þeir stóðu í kvöld.

Mörk Aftureldingar: Blær Hinriksson 5/3, Gestur Ólafur Ingvarsson 2, Einar Ingi Hrafnsson 2, Ihor Kopyshynskyi 2, Þorsteinn Leó Gunnarsson 2, Birkir Benediktsson 2, Árni Bragi Eyjólfsson 2.
Varin skot: Brynjar Vignir Sigurjónsson 11, 39,3% – Jovan Kukobat 2/1, 40%.
Mörk Hauka: Guðmundur Bragi Ástþórsson 5/4, Andri Már Rúnarsson 5, Stefán Rafn Sigurmannsson 4, Aron Rafn Eðvarðsson 2, Heimir Óli Heimisson 2, Ólafur Ægir Ólafsson 2, Geir Guðmundsson 1, Birkir Snær Steinsson 1/1, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 1.
Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 15/1, 48,4%.

Handbolti.is var að Varmá og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -