- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Markmiðið er að vera heima næsta árið – verkfræðinám í haust

Elín Klara Þorkelsdóttir fagnar sínu fyrsta landsliðsmarki á heimavelli í byrjun nóvember í leik við Ísrael á Ásvöllum. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Það er ekki gott að segja,“ sagði Elín Klara Þorkelsdóttir handknattleikonan úr Haukum sposk á svip þegar handbolti.is spurði hana í hvaða sporum hún standi að ári liðinu. Fyrir ári var Elín Klara valin efnilegasti leikmaður Olísdeildar kvenna. Í gær hreppti hún nafnbótina öðru sinni auk þess að vera valin besti leikmaður Olísdeildarinnar.

„Fyrst og fremst er heiður að verða fyrir valinu og afar skemmtilegt að ljúka tímabilinu á þennan hátt,“ sagði Elín Klara og viðurkenndi að hún hafi sannarlega ekki átt von á að verða valin besti leikmaður deildarinnar. „Ég gat alveg eins átt von á að verða valin sú efnilegasta en að verða valin best kom mér skemmtilega á óvart.“

Elín Klara Þorkelsdóttir úr Haukum með eina af viðurkenningum sínum á lokahófi HSÍ í gær. Mynd/HSÍ

Lék sinn fyrsta A-landsleik

Elín Klara verður 19 ára gömul í september en er þegar orðin burðarás í meistaraflokksliði Hauka. Hún hefur tekið stórstígum framförum síðustu ár og tekist á við hverja áskorunina á fætur annarri, m.a. að leika með A-landsliðinu á nýliðnu keppnistímabili en um leið verið framúrskarandi nemandi. Hvert stefnir þessi efnilega handknattleikskona?

Atvinnumennska og verkfræði

„Ég stefni klárlega á að fara út í atvinnumennsku í handbolta á næstu árum. Markmiðið er að vera heima að minnsta kosti næsta árið. Í haust ætla ég að hefja nám í vélaverkfræði í HR og að ljúka fyrsta árinu hér heima og sjá til hvert það leiðir mig,“ svaraði Elín Klara og viðurkennir að hafa fundið fyrir áhuga að utan.

Elín Klara í einum af leikjunum við ÍBV í úrslitakeppninni í vor. Mynd/Olísdeildin

Stekkur ekki á hvað sem er

„Það hefur verið einhver áhugi en við sjáum til hvað setur. Ég er ekki tilbúin að stökkva á hvað sem er, hvenær sem er. Mig langar að reyna að velja rétt þegar að því kemur að stíga út í heim atvinnumennskunnar. Mig hefur lengi dreymt um að fara út í atvinnumennsku og leika fyrir íslenska landsliðið,“ sagði Elín Klara sem æfði einnig knattspyrnu um árabil en ákvað að veðja á handboltann, eins og hún sagði í samtali við handbolta.is fyrir ári.

Spennandi úrslitakeppni

Tímabilið hjá Haukum gekk vel þegar horft er til baka þótt vissulega hafi á ýmsu gengið í langri deildarkeppni. Haukar ruddu Íslandsmeisturum Fram úr vegi í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í tveimur leikjum, þeim síðari eftir framlengingu þar sem Elín Klara tryggði Haukaliðinu sigur. Eftir það tók við frábær fimm leikja rimma við deildar- og bikarmeistara Hauka sem var ekki leidd til lykta fyrr en eftir framlengdan oddaleik í Vestmannaeyjum.

Þróaði leikinn áfram

Elín Klara segist vera ánægð með árangur Hauka og eigin frammistöðu þegar litið sé heilt fyrir keppnistímabilið. „Auðvitað gekk mér stundum vel og stundum ekki eins vel. En ég held að mér hafi tekist að halda áfram að þróa minn leik jafnt og þétt allt keppnistímabilið og um leið bætt nokkrum vopnum við í búrið. Til viðbótar fékk ég tækifæri til þess að leika með A-landsliðinu og auka á reynsluna.

Elín Klara í leik á HM 18 ára landsliða á síðasta sumri. Mynd/IHF

Slær ekki slöku við

„Ég er stolt af afrakstri mínum og framförum í vetur og ætla mér að halda áfram að þróa minn leik á næsta keppnistímabili,“ sagði Elín Klara sem slær ekki slöku við næstu vikurnar.
Um helgina verður Elín Klara með U19 ára landsliðinu í Færeyjum í tveimur vináttuleikjum. Í júní tekur við Evrópumót 19 ára landsliða í Rúmeníu. Eftir frábæran árangur 18 ára landsliðs kvenna á HM á síðasta sumri eru gerðar talsverðar væntingar til landsliðsins að þessu sinni.

Vonandi má nota harpix

„Mót yngri landsliðanna er eitt það skemmtilegasta sem maður gerir. Það er einhver pressa á okkur en við erum spenntar og munum gera okkar besta. Á EM verðum við í riðli með heimaliðinu, Rúmeníu, einnig landsliðum Portúgal og Þýskalands, allt sterkum landsliðum. Við verðum bara að sjá til hvernig þetta fer en vonandi má nota harpix,“ sagði Elín Klara og kímdi minnug tilraunarinnar á HM 18 ára landsliða á síðasta sumri þegar var leikið með nýjum umdeildum bolta og harpix harðbannað.

Handboltinn er einhvern veginn meira fyrir mig

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -