Arnór Þór Gunnarsson var tekinn í heiðurshöll þýska handknattleiksliðsins Bergischer HC í gær eftir að hann lék sinn síðasta leik fyrir félagið eftir 11 ára samfellda veru. Arnór Þór hefur ákveðið að hætta sem leikmaður í vor og snúa sér að þjálfun. Tekur hann til starfa sem þjálfari hjá Bergischer HC í næsta mánuði.
Eftir 11 ár
„Mér og Fabian Gutbrod var sýndur þessi heiður og erum við þar með komnir í hóp með Sebastian Hinze þjálfara sem hætti eftir 10 ára starf fyrir ári síðan og flutti sig um set. Ég er búinn að vera hjá félaginu í ellefu ár og Gutbrod í tíu,“ sagði Arnór Þór í samtali við handbolta.is í morgun. Keppnispeysur Arnórs Þórs númer 11 og Gutbrod númer 22 verða hengdar upp í keppnishöllinni.
Arnór Þór sem er á 36. aldursári sagði kveðjustundina í gær hafa verið tilfinningaþrungna þótt hún hafi ekki komið á óvart þar sem á annað ár sé liðið síðan hann tók ákvörðun að láta gott heita vorið 2023.
Rammað inn ferilinn
„Dagurinn var sérstakur en skemmtilegur með síðasta leiknum og nær því allri fjölskyldunni á meðal áhorfenda, þar á meðal voru mamma og pabbi [Jóna Arnórsdóttir og Gunnar Malmquist Gunnarsson]. Þau sáu mig spila fyrsta meistaraflokksleikinn með Þór á sínum tíma fyrir nærri 20 árum og voru einnig áhorfendur á síðasta leiknum. Það rammaði ferlilinn aðeins inn.
Kveðjumyndband
Æskufélagi minn, Sindri Viðarsson, hafði búið til myndband þar sem hann hafði fengið marga af mínum bestu vinum frá því í æsku og þeim sem hafa leikið með í félagsliðum og í landsliðinu til að senda mér kveðjur. Svo fór maður í leikinn. Ég viðurkenni að ég var álíka stressaður og fyrir fyrsta meistaraflokks leik,“ sagði Arnór Þór léttur í bragði að vanda.
20 ár í meistaraflokki
„Ég get ekki annað en verið sáttur við ferilinn. Árin í meistaraflokki eru tuttugu, félögin fjögur, Þór, Valur, Bittenfeld [nú Stuttgart] og Bergischer. Ég er þakklátur öllum þeim sem hafa spilað með mér og öllum þjálfurunum sem ég hef átt á ferlinum. Ég hlakka til að takast á við nýtt hlutverk þótt það tengist handboltanum,“ sagði Arnór Þór sem tekur við starfi aðstoðarþjálfara aðalliðs Bergischer HC í næsta mánuði og verður einnig þjálfari unglingaliðs félagsins.
Ekki hægt að afþakka
„Ég fékk tækifæri til þess að taka Master Coach gráðuna á vegum HSÍ og HR sem var frábær möguleiki. Síðan bauð Bergischer mér að koma inn í þjálfarateymi félagsins. Það var ekki annað hægt en að taka því tilboði og láta reyna á þjálfarann í manni. Ég mun á næstu tveimur árum verða eins og svampur og læra af þeim þjálfurum sem eru þegar hjá félaginu. Seinni gefst manni kannski tækifæri til þess að taka við sem aðalþjálfari hjá liði.
Ekki sjálfgefið
Okkur líður vel í Þýskalandi. Börnin okkar eru fædd hér. Þess vegna var ekki annað hægt en að taka tilboði félagsins að koma inn í þjálfarahópinn. Það er alls ekki sjálfgefið að félög bjóði leikmönnum annað starf þegar þeir ljúka leikmannaferli sínum. Ég er stoltur af því að Bergsicher veitir mér þetta tækifæri,“ sagði Arnór Þór Gunnarsson handknattleiksmaður og verðandi handknattleiksþjálfari. Eiginkona Arnórs Þórs er Jovana Lilja Stefánsdóttir fyrrverandi körfuknattleikskona. Þau eiga tvö börn, stúlku og dreng.