Alain Portes fyrrverandi landsliðsþjálfari Frakka í handknattleik hafa verið dæmdar 180.000 evrur í bætur fyrir uppsögn í starfi landsliðsþjálfara kvenna í kjölfar heimsmeistaramótsins 2015.
Portes hefur lengi barist fyrir rétti sínum vegna uppsagnarinnar. Frá fyrsta degi hefur hann haldið því fram að franska handknattleikssambandið hafi ekki staðið löglega að uppsögninni og svikið sig um laun og aukagreiðslur. Forráðamenn franska handknattleikssambandsins hafa skellt skollaeyrum við kröfum Portes frá fyrsta degi.
Óhætt er að segja að Portes, sem er orðinn 61 árs, hafi sýnt mikla þrautseigju við málareksturinn sem loksins er lokið fyrir dómstólum eftir rúm sjö ár. Lengi vel átti Portes á brattann að sækja.
Umreiknað yfir í íslenska krónur er 180.000 evrur um 27 milljónir króna.
Lék bronsleikinn við Ísland á ÓL ’92
Portes var á sínum tíma þekktur handknattleiksmaður. Hann lék m.a. í 12 ár með USAM Nîmes og var í um áratug landsliðsmaður. Portes var í um áratug leikmaður franska landsliðsins og tók m.a. þátt í Ólympíuleikunum 1992 þegar Frakkar unnu Íslendinga í viðureign um bronsverðlaun.
Eftir að leikmannaferlinum lauk þjálfaði Portes víða þangað til hann tók við þjálfun kvennalandsliðs Frakka 2013 af Olivier Krumbholz. Eftir að Portes var sagt upp í árslok 2015 tók Krumbholz aftur við og hefur stýrt landsliðinu síðan. Krumbholz mun hafa uppi áform um að hætta eftir Ólympíuleikana á næsta ári. Þá verður hann búinn að vera 26 ár í starfi að hálfu þriðja ári undanskildu þegar Portes hélt um stjórntaumana.
Síðast var Portes landsliðsþjálfari Alsír í karlaflokki frá 2019 til 2021.