- Auglýsing -
- Auglýsing -

Döhler kvað Mosfellinga í kútinn

Einar Rafn Eiðsson skoraði níu mörk fyrir FH í kvöld. Hér sækir hann að Einar Inga Hrafnssyni í leik liðanna á síðustu leiktíð. Mynd/Jóhannes Long
- Auglýsing -

Þjóðverjinn Phil Döhler, markvörður FH, kvað vængbrotið lið Aftureldingar í kútinn að Varmá í kvöld þegar FH-ingar sóttu Mosfellinga heim í áttundu umferð Olísdeildar karla í handknattleik. Döhler vaknaði af værum blundi þegar 20 mínútur voru til leiksloka. Þá tók hann að verja allt hvað af tók. Í framhaldinu keyrðu FH-ingar yfir Aftureldingarmenn með hraðaupphlaupum og náðu forskoti sem heimamönnum tókst aldrei að brúa. Lokatölur að Varmá, 33:27. Afturelding var marki yfir í hálfleik, 17:16.


Aftureldingaliðið hafði í fullu tré við FH-inga í 40 mínútur. Þegar Döhler vaknaði þá skildu leiðir. Mosfellingum tókst að minnka muninn í tvö mörk, 28:26, en nær komust þeir ekki og FH-ingar fögnuðu kærkomnum sigri.
FH er þar með komið upp í annað sæti Olísdeildar með 11 stig að loknum átta leikjum. Haukar eru stigi á undan í efsta sæti auk þess sem Haukar hafa lokið leik færra. Valur er stigi á eftir FH. Selfoss, ÍBV og Afturelding hafa síðan níu stig hver.

Markvörðurinn Phil Döhler reyndist Aftureldingarmönnum óþægur ljár í þúfu þegar á leið leikinn að Varmá í kvöld. Mynd/Jóhannes Long


Hinn ungi Þorsteinn Leó Gunnarsson fór á kostum í liði Aftureldingar og skoraði átta mörk. Mjög var tekið að draga af honum eins og fleiri leikmönnum Aftureldingar þegar á leikinn leið og staðan orðin erfið.
Einar Rafn Eiðsson var umsvifamikill í liði FH og skoraði níu mörk en brást bogalistin í tveimur vítaköstum sem er harla óvenjulegt hjá honum. Hornamennirnir Birgir Már Birgisson og Arnar Freyr Ársælsson voru öflugir og nýttu færi sín vel. Áður er getið um stórleik Döhlers markvarðar á síðustu 20 mínútum leiksins.

Staðan í Olísdeild karla.


Mörk Aftureldingar: Þorsteinn Leó Gunnarsson 8, Þorsteinn Gauti Hjálmarsson 6, Guðmundur Árni Ólafsson 5/2, Einar Ingi Hrafnsson 4, Guðmundur Bragi Ástþórsson 2, Blær Hinriksson 2.
Varin skot: Arnór Freyr Stefánsson 11, 26,8% – Bjarki Jónsson 1, 25%.
Mörk FH: Einar Rafn Eiðsson 9, Birgir Már Birgisson 6, Einar Örn Sindrason 4, Arnar Freyr Ársælsson 4, Ásbjörn Friðriksson 4, Ágúst Birgisson 2, Benedikt Elvar Skarphéðinsson 2, Leonharð Þorgeir Harðarson 1, Jakob Martin Ásgeirsson 1.
Varin skot: Phil Döhler 10 – 27%.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -