- Auglýsing -
- Vendsyssel, liðið sem Elín Jóna Þorsteinsdóttir og Steinunn Hansdóttir leika með, féll úr dönsku úrvalsdeildinni í gærkvöld en liðið kom upp í deildina fyrir þetta tímabil. Vendsyssel tapaði fyrir Köbenhavn Håndbold, 37:26, á útivelli í næst síðustu umferð deildarinnar og situr sem fyrr í neðsta sæti með þrjú stig. Horsens er í næst neðsta sæti með sex stig. Neðsta lið deildarinnar fellur í 1. deild en það næst neðsta fer í umspilskeppni. Elín Jóna varði fimm skot þann tíma sem hún stóð í marki Vendsyssel í gærkvöld og Steinunn skoraði eitt mark í þremur skotum.
- Vonir Íslendingaliðsins Ribe-Esbjerg um að komast í úrslitakeppnina um danska meistaratitilinn dofnuðu nær alveg í gærkvöld þegar liðið tapaði á heimavelli fyrir Skanderborg, 34:29. Ribe-Esbjerg á tvo leiki eftir í deildinni og er fjórum stigum frá síðasta umspilssætinu, því áttunda. Eins og oftast áður þá lék Rúnar Kárason vel fyrir Ribe-Esbjerg og var markahæstur með sjö mörk í 12 skotum auk þess að eiga fjórar stoðsendingar. Gunnar Steinn Jónsson skoraði fjögur mörk í sex skotum og átti þrjár stoðsendingar. Daníel Þór Ingason átti eitt markskot en skoraði ekki. Hann lét að vanda til sín taka í varnarleiknum.
- Arnór Atlason og félagar í Aalborg Håndbold töpuðu illa fyrir Nantes í B-riðili Meistaradeildar Evrópu í gærkvöld, 38:29, en leikið var í Frakklandi. Aalborg í er í fjórða sæti riðilsins með 10 stig eftir 10 leiki.
- Í gær var brugðið á það ráð að fresta þriðja leiknum í röð hjá þýsku meisturunum og Evrópumeisturunum THW Kiel eftir að kórónuveiran stakk sér niður í herbúðir liðsins á síðasta föstudag. Leik liðsins við Bjarka Má Elísson og félaga í Lemgo hefur verið frestað um ótiltekinn tíma. Um síðustu helgi varð að fresta leik Kiel og Leipzig og eins var viðureign Motor og Kiel sem fram átti að fara annað kvöld í Meistaradeild Evrópu frestað í upphafi vikunnar. Gangi allt að óskum þá lýkur sóttkví leikmanna Kiel á sunnudaginn. Þetta er ekki fyrsta sinn sem kórónuveira setur allt úr skorðum hjá Evrópumeisturunum. Í desember knúði veiran dyra og nokkrir leikmenn veiktust.
- Sænski hornamaðurinn Jerry Tollbring er að öllum líkindum á leið til dönsku bikarmeistaranna GOG og verður þar með liðsfélagi Viktors Gísla Hallgrímssonar á næstu leiktíð. SportFyn greindi frá þessu í gær samkvæmt heimildum. Tollbring hefur fengið fá tækifæri á leiktíðinni en Uwe Gensheimer leikur nær alla leikið Rehin-Neckar Löwen frá upphafi til enda. Auk þess þá þarf Löwen-liðið að draga saman seglin fyrir næstu leiktíð vegna mikils samdráttar í tekjum vegna kórónuveirufaraldursins.
- Jesper Jensen, þjálfari danska kvennalandsliðsins í handknattleik og Esbjerg, var í gær sektaður um 1.000 evrur, jafnvirði 154.000 kr., af aganefnd Handknattleiksssambands Evrópu, EHF, fyrir óviðeigandi ummæli um dómara í undanúrslitaleik Dana og Króata á EM kvenna í desember. Danir töpuðu leiknum og Jensen þótti dómararnir ekki vera starfi sínu vaxnir.
- Spænska landsliðskonan Nerea Pena yfirgefur danska meistaraliðinu Esbjerg við lok leiktíðar. Hún kom til Esbjerg í nóvember eftir að hana hafði gripið mikið óyndi í herbúðum ungverska liðsins Siofok þegar hver höndin var upp á móti annarri í kjölfar skyndilegra þjálfaraskipta. Orðrómur er uppi um að Pena semji við norska meistaraliðið Vipers á næstu dögunum.
- Auglýsing -