„Það var frábært að byrja á sigri en við gerðum leikinn alltof erfiðan og spennandi fyrir okkur,“ sagði handknattleikskonan Díana Dögg Magnúsdóttir þegar handbolti.is heyrði stuttlega í henni í kvöld eftir að lið hennar, BSV Sachsen Zwickau, vann HC Leipzig, 27:26, á útivelli í upphafsumferð þýsku 2. deildarinnar síðdegis í dag.
Díana Dögg skoraði eitt mark í leiknum. „Við gerðum alltof mikið af mistökum sem er kannski ekkert skrítið eftir langt hlé frá kappleikjum,“ sagði Díana Dögg ennfremur en hún gekk til liðs við BSV Sachsen Zwickau í sumar eins og kom fram í viðtali við hana á handbolta.is á dögunum.
Staðan var jöfn, 12:12, í hálfleik í leiknum í dag. Segja má að viðureignin hafi verið í járnum allan síðari hálfleikinn og sigurinn stóð tæpt hjá Díönu og samherjum því þeir voru marki undir, 26:25, þegar skammt var til leiksloka. En af harðfylgi tókst þeim að jafna og komast yfir á síðustu stundu og tryggja sér þar með stigin tvö.
Næsti leikur BSV Sachsen Zwickau verður á heimavelli gegn HSG Freiburg á laugardaginn.