Ísland leikur um fimmta sæti í handknattleikskeppni karla á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar í Maribor í Slóveníu á morgun. Eftir sigur á Svartfellingum í Vrbanska Sports íþróttahöllinni í Maribor í dag, 37:30, liggur það staðfest fyrir. Svartfellingar voru marki yfir að loknum jöfnum fyrri hálfleik, 16:15.
Noregur og Portúgal mætast síðar í dag í hinni viðureign krossspilsins um fimmta til áttunda sætið. Um er að ræða lið skipuð leikmönnum 17 ára og yngri.
Eins og lokatölurnar gefa til kynna var sigur íslensku piltanna öruggur. Þeir tóku völdin í sínar hendur eftir um tíu mínútur í síðari hálfleik og náðu mest tíu marka forskoti gegn lánlausum leikmönnum svartfellska liðsins sem hefur flegið feita gelti eftir viðureignir sína á mótinu. Liðið hefur tapað öllum viðureignum sínum með nokkuð miklum mun.
Þetta var þriðji sigur íslenska liðsins á mótinu í fjórum viðureignum og geta piltarnir vel við unað.
Mörk Íslands: Jens Bragi Bergþórsson 8, Magnús Dagur Jónatansson 7, Jónas Karl Gunnlaugsson 6, Stefán Magni Hjartarson 5, Antoine Óskar Pantano 4, Aron Daði Stefánsson 3, Max Emil Stenlund 2, Ágúst Guðmundsson 1, Jökull Helgi Einarsson 1.
Varin skot: Sigurjón Bragi Atlason 9, Óskar Þórarinsson 7.