- Auglýsing -
- Franska handknattleiksliðið Nantes, sem landsliðsmarkvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson leikur með, fagnar 70 ára afmæli á árinu. Stefnt er á að afmælisárið nái hámarki með hátíðarhöldum 10. og 11. nóvember. Félagið stendur vel að vígi, eftir því sem fram kemur í tilkynningu. Veltan á næstu leiktíð er áætluð 8 milljónir evra, um 1,2 milljarðar króna. Þegar hafa selst 15% fleiri ársmiðar á heimaleiki Nantes en á sama tíma og í fyrra sem veitir byr undir báða vængi. Auk þess að berjast um meistaratitilinn á heimavígstöðvum hefur markið verið sett á sæti í undanúrslitum Evrópudeildarinnar næsta vor.
- Arnór Snær Óskarsson skoraði tvö mörk fyrir Rhein-Neckar Löwen þegar liðið vann Göppingen, 41:37, í úrslitaleik á fjögurra liða móti í Þýskalandi sem lauk í gær. Ýmir Örn Gíslason lék einnig með RNL en kom mest við sögu í varnarleiknum. Balingen-Weilstetten hafnaði í þriðja sæti eftir sigur á Stuttgart, 28:27. Oddur Gretarsson skoraði sex af mörkum Balingen í leiknum. Daníel Þór Ingason einbeitti sér að varnarleiknum, alltént skoraði hann ekki mark.
- Daninn Ulrik Kirkely sem tók við þjálfun ungverska meistaraliðsins Györ í sumar hefur skipað fjóra fyrirliða. Þykir það harla óvenjulegt er Kirkely gefur þá skýringu að hann vilji hafa sem flesta leiðtoga innan liðsins. Fyrirliðarnir fjórir eru Kari Brattset Dale, Stine Oftedal, Estelle Nze Minko og Nadine Szöllősi-Schatzl.
- Ambros Martín, nýráðinn landsliðsþjálfari Spánar í handknattleik kvenna, stýrði liðinu í fyrsta skipti í tveimur vináttuleikjum við Rúmena fyrir og um helgina. Öðrum leiknum lauk með jafntefli, 30:30 en Rúmenar unnu hinn, 30:25.
- Martín er einn af þekktari þjálfurunum í handknattleik kvenna á síðari árum. Hann hætti í vor þjálfun Györ í Ungverjalandi í annað sinn á ferlinum. Um árabil þjálfaði Spánverjinn félagslið í Rússlandi og var m.a. um skeið þjálfari rússneska landsliðsins en hætti áður en rússneska liðið hafði lokið keppni á EM í Danmörku í desember 2020.
- Sænsk handknattleikskona, Elin Svensson, gekk til liðs við Kungälv í sumar. Eftir að hafa mætt á fyrstu æfingu sína með liðinu í síðustu viku er óhætt að segja að henni hafi fallist hendur. Hún ákvað hætta æfingum og leggja handknattleiksskóna á hilluna.
- Auglýsing -