- Auglýsing -
- U19 ára landslið Íslands í handknattleik mætir í dag landsliði Suður Kóreu í fyrstu umferð milliriðlakeppni um sæti 17 til 32 á heimsmeistaramóts karla handknattleik í Króatíu. Leikurinn hefst klukkan 11.30. Handbolti.is fylgist með leiknum í textalýsingu auk þess sem streymi frá leiknum verður aðgengilegt á forsíðu handbolta.is.
- Skammt verður stórra högga á milli því að á morgun, þriðjudag, þá leika strákarnir síðari leikinn í milliriðlum. Þeir mæta landsliði Barein klukkan 13.30.
- Þýska handknattleiksliðið SC DHfK Leipzig gerði það gott í Jótlandsför sinni fyrir og um nýliðna helgi. Liðið lagði fjögur dönsk úrvalsdeildarlið í æfingaleikjum. Síðast lágu leikmenn Aalborg Håndbold í valnum, 40:33. Viggó Kristjánsson skoraði þrjú mörk í leiknum og Andri Már Rúnarsson eitt. Rúnar Sigtryggsson er þjálfari SC DHfK Leipzig. Hin dönsku liðin sem SC DHfK Leipzig vann voru Bjerringbro/Silkeborg, Team Tvis Holstebro og Fredericia HK.
- Eftir tap, 28:27, í fyrri æfingaleiknum við dönsku meistarana, GOG, þá vann Kolstad síðar leikinn sem fram fór í gær í Kolstad Arena að viðstöddum nærri 1.100 áhorfendum, 30:28. Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði fimm mörk fyrir Kolstad í leiknum í gær. Norski landsliðsmaðurinn Magnus Gullerud var markahæstur hjá Kolstad með sjö mörk.
- Ágúst Elí Björgvinsson og Elvar Ásgeirsson voru með Ribe–Esbjerg þegar liðið vann TM Tønder í æfingaleik á laugardaginn, 26:20. Elvar skoraði eitt mark. Þetta var fyrsti æfingaleikur Ribe-Esbjerg á undirbúningstímabilinu.
- Örn Vésteinsson Östenberg og nýir samherjar hans í Lubeck–Schwartau töpuðu fyrir danska úrvalsdeildarliðinu SønderjyskE í æfingaleik, 34:27.
- Auglýsing -