Vinstri hornamaðurinn Friðrik Hólm Jónsson hefur snúið á ný heim til ÍBV eftir eins árs veru í herbúðum ÍR-inga. Frá þessu segir í tilkynningu handknattleiksdeildar ÍBV í kvöld. Friðrik Hólm kemur til með að hlaupa í skarðið fyrir Janus Dam Djurhuus sem flutti heim til Færeyja í sumar eftir eins árs dvöl í Vestmannaeyjum.
Friðrik Hólm er öllum hnútum kunnugur í herbúðum ÍBV. Hann varð meðal annars Íslands-, deildar- og bikarmeistari með ÍBV árið 2018 og var á ný í bikarmeistaraliðinu í mars 2020 rétt áður en öllu var skellt í lás þegar covid fór eins og eldur í sinu um heiminn. Friðrik Hólm sleit krossband haustið 2020 og var frá keppni í ár.
„Við erum mjög ánægð með að Friðrik hafi ákveðið að koma aftur til ÍBV og hlökkum til að fylgjast með honum á vellinum,“ segir m.a. í tilkynningu ÍBV.