- Auglýsing -
- Einar Sverrisson handknattleiksmaður hjá Selfoss glímir við meiðsli og lék ekkert með liðinu gegn ÍBV í gærkvöld. Hann var engu að síður á leikskýrslu og skoraði eitt mark. Selfoss fékk aukakasti í þann mund sem leiktíminn í fyrri hálfleik rann út. Aukakastið var eitt eftir. Eyjamenn stilltu upp í varnarvegg. Einar kom á vettvang og tók aukakastið. Gerði hann sér lítið fyrir og skoraði, fann smugu á varnarvegg ÍBV og hamraði boltann upp í fjærhornið hjá Birni Viðari Björnssyni markverði sem kunni félögum sínum í vörninni litlar þakkir fyrir að hafa ekki haft betri gætur á skotinu.
- Tilkynnt var í fyrradag að norski hornamaðurinn Kristian Bjørnsen hafi skrifað undir þriggja ára samning við danska meistaraliðið Aalborg Håndbold. Bjørnsen kemur til félagsins í sumar. Hann er á sínu fimmta keppnistímabili með Wetzlar í Þýskalandi. Koma Bjørnsen til Álaborgar hefur legið í loftinu undanfarna daga.
- Danski handknattleiksþjálfarinn Kim Rasmussen er hættur þjálfun pólska kvennaliðsins MKS Lublin. Hann tók við þjálfun þess í sumar. Rasmussen einbeitir sér á næstunni að þjálfun kvennalandsliðs Svartfjallalands.
- Heimilt verður að selja 1.500 áhorfendum aðgang að leikjum bikarkeppninnar í karalaflokki á Spáni sem fram fer 5., 6. og 7. mars í Madrid. Kappleikir á Spáni hafa farið fram fyrir luktum dyrum til þessa á keppnistímabilinu.
- Bjarni Ófeigur Valdimarsson var í fyrrakvöld í fyrsta sinn í nokkrar vikur í leikmannahópi sænska úrvalsdeildarliðsins Skövde þegar liðið gerði jafntefli við Ystads IF, 30:30. Bjarni kom reyndar ekkert við sögu í leiknum en var á bekknum og virðist þar með vera að jafna sig á nárameiðslum sem hafa hrjáð hann vikum saman.
- Auglýsing -