- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Þurftum að skera niður og horfa meira inn á við

Patrekur Jóhannesson þjálfari Stjörnunnar. Mynd/Kristján Orri Jóhannsson
- Auglýsing -

„Það hafa orðið talsverðar breytingar hjá okkur frá síðasta keppnistímabili,“ sagði Patrekur Jóhannesson þjálfari karlaliðs Stjörnunnar þegar handbolti.is hitti hann að máli eftir viðureign Stjörnunnar og Aftureldingar á UMSK-mótinu á síðasta laugardag.


„Staðan er sú að leikmannahópurinn er að 60 til 70% leyti uppaldir Stjörnumenn. Meðalaldurinn er talsvert lægri, 22 til 23 ár í stað 28 ára í fyrra. Ég er sáttur við þetta og tel það vera eina vitið eins og málum er komið að horfa á þá leikmenn sem fyrir eru í félaginu í bland við nokkra leikmenn sem geta styrkt hópinn,“ sagði Patrekur sem horfir ótrauður fram á veginn þrátt fyrir miklar breytingar á leikmannahópnum eins og sjá má hér fyrir neðan þar sem helstu breytingar eru tíundaðar.

Komnir:
Benedikt Marinó Herdísarson frá Fjölni (var í láni).
Egill Magnússon frá FH.
Haukur Guðmundsson frá Aftureldingu.
Ísak Logi Einarsson frá Val.
Jón Ásgeir Eyjólfsson frá Fjölni (var í láni).
Victor Máni Matthíasson frá StÍF (Færeyjum).
Ekki hefur tilkynnt um komu Victors Mána til Stjörnunnar en hann lék með liðinu í UMSK-mótinu.
Farnir/hættir:
Ari Sverrir Magnússon til HK.
Arnar Freyr Ársælsson. 
Arnór Freyr Stefánsson, er markvarðaþjálfari.
Björgvin Þór Hólmgeirsson.
Brynjar Hólm Grétarsson til Þórs.
Gunnar Steinn Jónsson.
Jóhann Karl Reynisson.
Leó Snær Pétursson til Aftureldingar. 

Karlar – helstu félagaskipti 2023

Áfram með gott lið

„Ég var með mjög gott lið í fyrra með frábærum leikmönnum. Nú horfir málið öðru vísi við. Núna þurftum við að skera niður og horfa meira inn á við sem mér finnst frábært,“ sagði Patrekur sem slakar ekki í markmiðum liðsins. Þau eru óbreytt, þ.e. að vera í fremstu röð.

Áfram alvöru markmið

„Ég held að ýmsu leyti sé ég ekki með lakara lið en í fyrra þótt hópurinn sé yngri. Maður fer í öll verkefni með alvöru markmið. Ég geri mér um leið greina fyrir að það getur tekið okkur tíma að slípa hópinn saman. Það sem veitir mér bjartsýni er að sumaræfingar hafa gengið mjög vel. Strákarnir hafa lagt sig mjög fram. Þegar maður er með hóp í höndunum sem er tilbúinn að lifa á handbolta þá er starf þjálfarans skemmtilegt,“ sagði Patrekur og bætti við.

Patrekur Jóhannesson þjálfari karlaliðs Stjörnunnar og Egill Magnússon, t.h.. Egill er mættur til leiks með Stjörnunni eftir nokkurra ára fjarveru. Mynd/Stjarnan

„Við höfum undanfarin ár verið í fimmta, sjötta eða sjöunda sæti. Við eigum að geta verið á því róli áfram, jafnvel gert betur.“

Um 40 æfingar á mánuði

Yngri keppnishópi fylgja aðrar áherslur á undirbúningstímanum. Patrekur segir það gefa auga leið að með yngri leikmönnum er hægt og hreinlega nauðsynlegt að vera með fleiri æfingar á undirbúningstímanum.

„Frá 24. júlí höfum við æft fjörutíu sinnum. Stundum tvisvar á dag og meðal annars æft samhliða kvennaliðinu sem er gott og treystir mjög félagslega þáttinn. Við fengum liðsauka í Ragnari Hermannssyni sem sér um styrktaræfingar fyrir karla- og kvennaliðið,“ sagði Patrekur Jóhannesson þjálfari karlaliðs Stjörnunnar við handbolta.is.

Tengdar fréttir:

Olísdeild karla.

Leikjadagskrá Olísdeildanna.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -