Sérfræðingurinn, Arnar Daði Arnarsson umsjónarmaður hlaðvarpsþáttarins Handkastið bendir á þá staðreynd á X í dag að í tvígang voru Valsmenn með átta leikmenn inni á leikvellinum gegn FH í Origohöllinni í gærkvöld án þess að dómarar leiksins, Bjarki Bóasson og Gunnar Óli Gústafsson, eða eftirlitsmaðurinn Gísli H. Jóhannsson, rækju í það augun.
Eitt í hvorum hálfleik
Með réttu hefði Val átt að vera refsað með tveggja mínútna brottvísun í bæði skiptin. Valsmenn greiddu úr vanda sínum áður en þeir sem áttu að halda uppi röð og reglu á leikvellinum tóku eftir. Fyrra atvikið átti sér stað í fyrri hálfleik en það síðara í síðari hálfleik.
Óskar og Leonharð kveikja á perunni
Í fyrra tilfellinu tók Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals eftir að Vigni Stefánssyni var ofaukið á leikvellinum. Óskar gaf Vigni laumulega merki um að fara af leikveli. Vignir brást hiklaust við gekk rakleitt út fyrir hliðarlínu austanmegin við varamannabekk Vals. Sjá má á myndskeiðinu hér fyrir neðan að Leonharð Þorgeir Harðarson hornamaður FH kveikti á perunni en nær ekki athygli dómara eða eftirlitsmanns.
Í tvígang í gær voru Valsmenn of margir inná vellinum án þess að hvorki dómarar leiksins né eftirlitsdómari hafi tekið eftir þessu. Fyrra atvikið er auðvitað taktísk snilld á sama tíma kostulegt hjá bæði ÓBÓ og Vigni. #Handkastið pic.twitter.com/Lliyw4l4y5
— Arnar Daði (@arnardadi) September 12, 2023
Í jöfnum leik getur það munað miklu fyrir lið að vera tvisvar sinnum án eins sóknarmanns.
Von er á nýjum Handkastsþætti á streymisveitur í kvöld þar sem vafalítið verður farið yfir þetta mál og fleiri af þeim Arnari Daða, Tedda Ponsa og Styrmi.