- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Aron, Dagur og Erlingur eru komnir til Hangzhou

Dagur Sigurðsson, Aron Kristjánsson og Erlingur Richardsson standa í ströngu þessa dagana. Mynd/Aðsend
- Auglýsing -

Þrír íslenskir handknattleiksþjálfarar taka þátt í Asíuleikunum sem hefjast í dag í Hangzhou í Kína og standa fram til 5. október þegar úrslitaleikurinn fer fram. Handknattleikskeppni Asíuleikanna er aðeins lítill hluti af leikunum en Asíuleikunum má helst líkja við Ólympíuleika með fjölda íþróttagreina og keppendum frá nær öllum ríkjum Asíu.

Aron Kristjánsson verður með landslið Barein, Dagur Sigurðsson með japanska landsliðið og Erlingur Richardsson stýrir landsliði Sádi Arabíu á sínu fyrsta móti eftir að hann tók við þjálfun í síðasta mánuði.

Dagur Sigurðsson, Aron Kristjánsson og Erlingur Richardsson í Hangzhou í morgun. Þess má til gamans geta að þeir voru saman í íslenska landsliðinu sem tók þátt í heimsmeistaramótinu í Frakklandi í janúar 2001. Mynd/Aðsend

Andstæðingar í fyrsta leik

Fyrstu leikir handknattleikskeppninnar fara fram á morgun eða aðfaranótt sunnudagsins að íslenskum tíma. Dagur og Erlingur mætast strax í fyrstu umferð þegar Japanir og Sádi Arabar eigast við.


Alls taka 13 landslið þátt í handknattleikskeppninni í karlaflokki. Barein á sæti í C-riðli með landsliðum Kasakstan og Úsbekistan.

Japan og Sádi Arabía drógust saman í D-riðli ásamt landsliðum Íran og Mongólíu. Tvö lið komast áfram úr hverjum riðli í milliriðla. Ljóst er að hörð keppni verður í D-riðli því auk Japan og Sádi Arabíu eru Íranar með harðsnúið landslið undir stjórn Veselin Vujović.

Fyrsti leikur Arons með landslið Barein verður við landslið Kasakstan í nótt að íslenskum tíma. Flautað verður til leiks klukkan fjögur.

Reykur af réttunum

Handknattleikskeppni Asíuleikanna er aðeins upphitun fyrir forkeppni Ólympíuleikanna sem fram fer í næsta mánuði og Asíumótið í handknattleik í janúar þar sem bitist verður um þátttökuréttinn á HM á næsta ári.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -