Kári Kristján Kristjánsson leikmaður ÍBV og Patrekur Jóhannesson, fyrrverandi þjálfari karlaliðs Stjörnunnar, voru úrskurðaðir í eins leiks bann á fundi aganefndar HSÍ í gær. Þetta kemur fram í úrskurði sem birtur var á vef HSÍ í dag. Kári Kristján verður þar með ekki gjaldgengur með ÍBV á laugardaginn þegar ÍBV tekur á móti KA.
Í úrskurði aganefndar segir að Kári Kristján hafi hlotið útilokun með skýrslu vegna „sérstaklegrar hættulegrar aðgerðar“ í leik Gróttu og ÍBV í Olís deild karla þann 28. september. „Dómarar meta að brotið falli undir reglu 8:6 a). Með tilvísun í 10. gr. reglugerðar HSÍ um agamál er það niðurstaða aganefndar að leikmaðurinn er úrskurðaður í eins leiks bann.“
Patrekur hlaut útilokun eftir að viðureign Stjörnunnar og KA í KA-heimilinu á síðasta föstudag var lokið og handbolti.is hefur m.a. fjallað um áður.
Útilokunina fékk Patrekur „vegna mjög grófrar ódrengilegrar hegðunar,“ segir orðrétt í úrskurði aganefndar en dómarar mátu sem svo að brotið féll undir reglu 8:10 a).
Böðvar og Jón fengu ekki bann
Böðvar Páll Ásgeirsson, Aftureldingu, og Jón Ásgeir Eyjólfsson, Stjörnunni, sem báðir voru útilokaðir með skýrslu vegna grófra leikbrota í síðustu leikjum liða sinna, voru ekki úrskurðaðir í leikbann. Þeir eru minntir á stighækkandi áhrif útilokana. Einnig voru Kári Kristján og Patrekur minntir á þá staðreynd í úrskurði aganefndar sem hér má lesa í heild sinni.
Leikjadagskrá og staðan í Olísdeildum.