Danski handknattleiksþjálfarinn Martin Albertsen var leystur frá störfum hjá ungverska kvennaliðinu FTC (Ferencváros) í gær. Albertsen tók við þjálfun liðsins í sumar og hætti m.a. um leið þjálfun svissneska kvennalandsliðsins. FTC er taplaust í ungversku úrvalsdeildinni að loknum fjórum leikjum.
Undir stjórn Danans hefur FTC átt á brattann að sækja í fyrstu leikjum sínum í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Eftir þrjá tapleiki tókst FTC að ná jafntefli við Rapid Búkarest á heimavelli í 4. umferð um síðustu helgi. FTC lék til úrslita í Meistaradeildinni í vor undir stjórn Elek Gabor sem hætti í kjölfarið eftir 15 ár í stóli þjálfara.
Þegar Albertsen tók við þjálfun FTC í sumar sagði hann draum sinn orðinn að veruleika. Nú er sá draumur orðinn að martröð. Allan Heine, aðstoðarmaður Albertsen, tekur tímabundið við þjálfun ungverska liðsins sem er eitt það þekktasta í kvennahandknattleik í Evrópu.
Albertsen er enn einn þjálfarinn í evrópskum handknattleik sem verður að axla sín skinn eftir nokkra leiki í upphafi tímabilsins. Meðal þeirra eru Kim Rasmussen sem þjálfaði hjá fyrrgreindu liði Rapid, Ian Marko Fog, GOG, Slavko Goluža sem þjálfaði RK Zagreb og Alexandros Alvanos hjá AEK Aþenu svo nokkur dæmi séu tekin