Viðureign Íslands og Lúxemborgar í undankeppni EM kvenna í handknattleik á Ásvöllum á miðvikudaginn verður fyrsti leikur Lúxemborgar í riðlakeppni í undankeppni EM í sögu kvennalandsliðsins.
Fram til þess hefur landslið Lúxemborgar nokkrum sinnum tekið þátt í forkeppni fyrir undankeppni EM en ekki náð lengra. Svo virðist sem andstæðingur íslenska landsliðsins verði eitt óreyndasta landslið Evrópu um þessar mundir.
Forkeppni EM féll niður að þessu sinni. Þess vegna komst Lúxemborg beint í undankeppnina. Færri lið taka þátt í undankeppninni sem hefst á miðvikudaginn í átta riðlum.
Ástæða fækkunarinnar er m.a. að veikari þjóðir hættu við að taka þátt forkeppninni sem átti að fara fram í janúar. Eins vegna þess að þrjár þjóðir verða gestgjafar EM 2024. Til viðbótar er Rússum og Belarus (Hvíta-Rússland) ekki heimiluð þátttaka.
Tina Welter er leikreyndasti leikmaður landsliðs Lúxemborgar. Hún þrítug og leikur með Handball Käerjeng. Welter er leikreyndust með 21 landsleik og 97 landsliðsmörk. Hún er einnig sú eina sem hefur reynslu af því að leika með félagsliði utan heimalandsins. Welter lék með Göppingen í Þýskalandi frá 2014 til 2021.
Handball Käerjeng er öflugasta félagslið Lúxemborgar í kvennaflokki. Liðið tapaði fyrir skömmu samanlagt, 50:40, fyrir AESH Pylea Thessaloniki frá Grikklandi í 64 liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar í handknattleik kvenna.
Þrettán ár eru síðan fyrrgreind Tina Welter lék sinn fyrsta A-landsleik.
Aðeins eru sex ár síðan kvennalandslið á vegum handknattleikssambands Lúxemborgar var endurreist.
Eftir að landslið Lúxemborgar var ýtt úr vör á ný 2017 hefur það unnið einn leik, gegn Finnlandi í forkeppni fyrir HM 2021. Í sömu keppni tapaði Lúxemborg fyrir landsliðum Ísrael, Slóvakíu og Úkraínu.
Í forkeppni EM 2022 tapaði Lúxemborg fyrir Portúgal, Kósovó og Kýpur.
Í byrjun nóvember á síðasta ári tapaði Lúxemborg fyrir Úkraínu í tveimur leikjum í forkeppni HM, 30:11 og 36:13.
Leikurinn á Ásvöllum á miðvikudaginn verður sá fyrsti sem landslið Lúxemborgar leikur undir stjórn Frakkans Alexandre Scheubel. Hann tók við starfinu fyrir nokkrum vikum af Rúmenanum Adrian Stot sem var bæði landsliðsþjálfari karla og kvenna.
Nokkrar myndir frá æfingu íslenska landsliðsins í Mýrinni í Garðabæ í dag.
Viðureign Íslands og Lúxemborgar hefst klukkan 19.30 á Ásvöllum á miðvikudaginn. Frítt verður á leikinn í boði Boozt.com, eins af samstarfsfyrirtækjum HSÍ.
Auk Íslands og Lúxemborgar eiga Færeyingar og Svía sæti í riðlinum. Undankeppni er að hefjast. Henni lýkur næst vor og komst tvö efstu liðin áfram í lokakeppni EM sem fram fer í desember 2024 í Austurríki, Sviss og Ungverjalandi.