Svíar unnu stórsigur á færeyska landsliðinu í 7. riðli undankeppni EM kvenna í handknattleik í dag, 37:20, en lið þjóðanna eru með íslenska landsliðinu í riðli auk landsliðs Lúxemborgar. Leikið var í Uppsölum í Svíþjóð.
Íslenska landsliðið mætir færeyska landsliðinu í Þórshöfn á sunnudaginn en á milli liðanna stendur baráttan um annað sæti riðlisins, ef að líkum lætur.
Sænska landsliðið var með sex marka forskot í hálfleik, 19:13. Í síðari hálfleik kom Elvelina Eriksson í sænska markið í stað Johanna Bundsen sem ekki hafði náð sér á strik. Segja má að Eriksson hafi farið illa með færeysku leikmennina.
Eriksson, sem leikur með CSM í Búkarest, skellti í lás og varði 10 skot, 58,8% hlutfallsmarkvarsla. Samhliða frammistöðu Eriksson keyrði sænska liðið upp hraðann svo að færeysku leikmennirnir fengu ekkert við ráðið.
Linn Blohm skoraði átta mörk fyrir sænska landsiðið og var markahæst. Næst var Jenny Carlson með fimm mörk.
Jana Mittún skoraði fjögur mörk og var markahæst í færeyska landsliðinu. Brynhild Pálsdóttir, Pernille Brandenborg og Maria Pálsdóttir Nólsoy skoruðu þrjú mörk hver.
Annika Friðheim Petersen, fyrrverandi markvörður Hauka, stóð í færeyska markinu og varð 10 skot, 21,2%.