Fagnaðarfundir voru á Ásvöllum á miðvikudagskvöld þegar Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Colin Wills hittust eftir að leik Íslands og Lúxemborgar í undankeppni Evrópumóts kvenna var lokið.
Wills var eftirlitsmaður Handknattleikssambands Evrópu, EHF, á viðureigninni. Hann var á árum áður handknattleiksdómari á Englandi og dæmdi oft leiki með félagsliði sem Guðni lék með á árunum 1988 til 1991 þegar hann var við nám í Warwick University í Coventry á Englandi.
Aldrei rekinn af leikvelli
„Ég held ég muni rétt að ég hafi aldrei verið rekinn af velli, í mesta lagi fengið gult spjald í stöku leik,“ sagði Guðni léttur í bragði í skriflegu svari við fyrirspurn handbolta.is af hverju fór svo vel á með honum og eftirlitsmanninum sem ekki þurfti að hafa Guðna undir smásjánni í kappleikjum á sínum tíma.
Guðni sagði það hafa verið afar ánægjulegt að hitta Wills eftir öll þau ár sem liðin eru síðan þeir voru síðast saman á handknattleiksvelli.
Vel fór á með Guðna og Wills eins og meðfylgjandi myndir benda til. Veltu þeir m.a. á milli sín tuskudýri. Handbolta.is er því miður ekki ljós tilurð tuskudýrsins, hvort það var í fórum Guðna eða Wills eftirlitsmanns. (smella má á myndirnar til að sjá þær stærri).
Guðni var liðtækur ungur handknattleiksmaður þegar hann fór til háskólanáms í Warwick University í Coventry 1988. Hann segist ekki hafa átt von að leikinn væri handknattleikur á England. Annað kom á daginn.
Var með betri mönnum
„Þegar ég kom út komst ég að því að þarna var handboltalið og kom það mér mjög á óvart. Ég leit við á æfingu og sá, ég frómt frá sagt, var ég með betri mönnum, ásamt tveimur Norðmönnum sem einnig voru þarna í námi. Aðrir í liðinu höfðu ekki æft íþróttina lengi en urðu ansi lunknir, sumir hverjir,“ segir Guðni.
Í Miðlandadeildinni
Lið hans lék í Miðlandadeildinni, ekki þeirri efstu þar sem bestu liðin voru. Engu að síður tókst Guðna og samherjum að verða bikarmeistarar í Miðlandadeildinni eitt árið.
Annar tveggja bikarmeistara
„Ég held því fram að ég sé annar tveggja Íslendinga sem hafa orðið bikarmeistarar í boltaíþrótt á Englandi. Hinn er Hermann Hreiðarsson með Portsmouth,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands léttur í bragði að vanda.