Kvennalandsliðið í handknattleik er komið til Þórshafnar í Færeyjum þar sem liðið mætir færeyska landsliðinu í 2. umferð undankeppni Evrópumótsins í Höllinni á Hálsi á morgun klukkan 14. Flogið var frá Reykjavíkurflugvelli rétt fyrir hádegið í morgun með leiguflugvél frá Icelandair. Með í för voru ríflega 50 stuðningsmenn landsliðsins, þar á meðal vaskir liðsmenn Sérsveitarinnar, stuðningsmannasveitar íslensku handknattleikslandsliðanna.
Æft verður í Höllinni á Hálsi í klukkustund í kvöld áður en haldið verður áfram að leggja á ráðin fyrir leikinn á morgun sem báðum liðum er mikilvægur í baráttunni um sæti á Evrópumótið sem fram fer í Austurríki, Sviss og Ungverjalandi í desember á næsta ári. Riðlakeppninni lýkur í vor en einnig eru landslið Lúxemborgar og Svíþjóðar með í riðlinum. Tvö efstu liðin verða örugg um sæti í lokakeppninni.
Eftir stórsigur á Lúxemborg, 32:14, á Ásvöllum á miðvikudag hefur íslenska liðið tvö stig. Færeyingar töpuðu fyrir Svíum, 37:20, í Uppsölum á fimmtudaginn.
Arnar Pétursson landsliðsþjálfari fór með 18 leikmenn til Þórshafnar. Sextán þeirra teflir hann fram í leiknum á morgun. Leikmennirnir 18 eru:
Markverðir:
Elín Jóna Þorsteinsdóttir, EH Aalborg.
Hafdís Renötudóttir, Val.
Aðrir leikmenn:
Andrea Jacobsen, Silkeborg-Voel.
Berglind Þorsteinsdóttir, Fram.
Díana Dögg Magnúsdóttir, BSV Sachsen Zwickau.
Elín Klara Þorkelsdóttir, Haukum.
Elín Rósa Magnúsdóttir, Val.
Elísa Elíasdóttir, ÍBV.
Hildigunnur Einarsdóttir, Val.
Jóhanna Margrét Sigurðardóttir, Skara HF.
Katrín Tinna Jensdóttir, Skara HF.
Lilja Ágústsdóttir, Val.
Perla Ruth Albertsdóttir, Selfossi.
Sandra Erlingsdóttir, TuS Metzingen.
Sunna Jónsdóttir, ÍBV.
Thea Imani Sturludóttir, Val.
Þórey Anna Ásgeirsdóttir, Val.
Þórey Rósa Stefánsdóttir, Fram (121/352).
Sara Sif Helgadóttir, markvörður, Katla María Magnúsdóttir og Lena Margrét Valdimarsdóttir urðu eftir heima af 21 leikmanni sem Arnar valdi á dögunum til þess að taka þátt í undirbúningi og síðar til þátttöku í leikjunum tveimur, gegn Lúxemborg og Færeyjum.