- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Gat ekki sleppt þessu tækifæri

Elías Már Halldórsson. Mynd/Fredrikstad Bkl.
- Auglýsing -

„Það er ekkert auðvelt að komast að hjá liði á þessu getustigi um þessar mundir. Þess vegna hikaði ég ekki lengi áður en ég ákvað að taka slaginn,“ segir Elías Már Halldórsson, handknattleiksþjálfari, en tilkynnt var í gær að hann tæki við þjálfun norska úrvalsdeildarliðsins Fredrikstad Bkl. í sumar.
Elías Már hefur undanfarin tæp tvö ár þjálfað meistaraflokk karla hjá HK samhliða því að vera yfirþjálfari félagsins. Hann heldur því áfram út keppnistímabilið og flytur til Noregs í sumar.

Eitt af markmiðunum

Elías Már lauk master coach-þjálfaranámskeiði Handknattleikssambands Evrópu í lok árs 2019 með það m.a. að marmiði að standa betur að vígi ef áhugi vaknaði utan landssteinanna. „Það var eitt af markmiðum mínum í kringum þjálfunina til lengri tíma að spreyta mig úti í Evrópu ef tækifæri gæfist. Þegar áhugi vaknaði hjá Fredrikstad þá var ekkert annað að gera en að láta slag standa,“ segir Elías Már og bætir við að aðdragandinn hafi ekki verið langur.

Gekk hratt fyrir sig

„Þeir höfðu samband við mig á mánudaginn í síðustu viku og spurðu hvort áhugi væri fyrir hendi. Í kjölfarið tóku við nokkrir fjarfundir þar sem farið var yfir málin. Upp úr því fékk ég tilboð frá félaginu sem var það álitlegt að mér fannst sem ég gæti ekki sleppt þessu tækifæri.“

Þakklátur HK

Elías Már segist hafa sett sig strax í samband við forráðamenn HK, lagt spilin á borðið. „Ég er þeim mjög þakklátur fyrir að taka vel í óskir mínar. Frá fyrsta degi hafa forráðamenn HK unnið málið af mikill fagmennsku. Allir hafa sýnt mér fullan skilning. Ég held mínu starfi áfram með meistaraflokk karla og sem yfirþjálfari yngri flokka til loka keppnistímabilsins. Eftir það fer ég mína leið og allir verða vonandi sáttir,“ segir Elías Már sem er með meistaraflokkslið sitt í efsta sæti Grill 66-deildar eftir sigur á Víkingi í viðureign efstu liðanna í Víkinni á laugardagskvöldið, 23:22.


Fredrikstad er sjötti fjölmennasti bær Noregs með rúmlega 80.000 íbúa og er í suðurvesturhluta landsins, skammt frá landamærunum við Svíþjóð og í um klukkustundar akstursfjarlægð suður af Ósló. Elías Már segir mikinn metnað ríkja innan félagsins enda er það á meðal rótgrónari liða í norskum kvennahandknattleik.

Stefna hærra

Fredrikstad Bkl. situr um þessar mundir í áttunda sæti af 13 liðum úrvalsdeildarinnar. Hugur stjórnenda félagsins er að vera á meðal fjögurra þeirra bestu. Vonbrigði ríkir með árangur á leiktíðinni og þess vegna var ákveðið að skipta um þjálfara. Einnig stendur fyrir dyrum nokkur uppstokkun á leikmannahópnum.

Fimm nýir leikmenn

„Menn eru stórhuga og eiga í viðræðum við fimm nýja leikmenn auk þess sem ljóst er að tveir úr núverandi leikmannahóp róa á önnur mið í sumar. Menn vilja komast í hóp fjögurra bestu, veita bestu liðunum í Noregi meiri keppni og taka um leið þátt í Evrópukeppni félagsliða.


Þetta er mjög spennandi. Áhugi er mikill í bænum fyrir liðinu og um þessar mundir er verið að reisa nýtt keppnis-, og æfingahús sem á að rúma 3.000 áhorfendur. Það á að vera tilbúið eftir tvö ár.“

Nokkuð vel undirbúinn

Elías Már þekkir til í norskum handknattleik en á árunum 2010 til 2012 lék hann með Haugaland HK og ØIF Ar­en­dal. „Ég hef fylgst með norska handboltanum undanfarin ár. Þess utan er ég talsvert betri í norsku en ég gerði ráð fyrir. Ég held að ég sé nokkuð vel undirbúinn fyrir þetta verkefni.“


Áður en Elías Már fer að pakka niður til Noregsferðar ætlar hann að ljúka verki sínu með HK og skila karlaliðinu upp í Olísdeildina í vor.

Erfitt að kveðja HK

„Nánast það eina í þessu ferli sem var erfitt það var að skilja við HK-liðið. Það verkefni hefur gengið mjög vel. Okkur hefur tekist að byggja upp mjög efnilegt lið þar sem meðalaldur leikmanna er um 22 ár. Svona er þessi blessaði bolti. Hlutirnir eru fljótir að breytast og það er nóg til af þjálfurum til þess að halda áfram að leiða HK-liðið áfram. Ég hef ekki áhyggjur af því að þau mál verði ekki leyst á farsælan hátt,“ sagði Elías Már Halldórsson, þjálfari HK, og verðandi þjálfari norska úrvalsdeildarliðsins Fredrikstad Bkl. í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -