„Við vorum bara ekki nægilegar góðir í kvöld. Gerðum alltof marga tæknifeila auk þess sem færanýtingin var ekki nægilega góð. Til viðbótar þá reyndist sjö manna sóknarleikur Færeyinga okkur erfiður. Þeir gerðu það mjög vel með heimsklassa mann sem er einstaklega snjall að stjórna leiknum í þessari stöðu,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik karla í samtali við handbolta.is í kvöld eftir nauman sigur á færeyska landsliðinu, 30:29, í Laugardalshöll í síðari leik liðanna.
Þeir svöruðu fyrir sig
„Upp úr sóknarleiknum þá fengu Færeyingar mörg góð færi sem gerði Viktori Gísla og Björgvin Páli erfitt um vik að finna taktinn í markinu. Viktor Gísli dró tennurnar úr Færeyingum í gær en að sama skapi þá svöruðu Færeyingar fyrir sig í kvöld með sjö á sex. Þeim tókst að stjórna hraða leiksins,” sagði Snorri Steinn sem var vonsvikinn yfir að gefa færeyska liðinu eftir stjórnun leiksins, lengst af.
Ekki nógu vel útfært hjá mér
Snorri Steinn sagðist hafa reynt að breyta til í varnarleiknum til þess að bregðast við sóknarleik Færeyinga. „Því miður var varnarleikurinn ekki nógu vel út færður hjá mér. En að sama skapi frábær hjá þeim. Það sjá það allir sem vilja sjá að Elías [Ellefsen á Skipagøtu] er frábær í þessu hlutverki sem hann hafði í kvöld,“ sagði Snorri Steinn og bætti við að hann hefði svo sannarlega viljað fá einn leik, þótt ekki hefði verið nema hluta út leik þar sem leikið var sex á sex.
Ekki auðvelt að fá leiki heima
„Það er eins og það er og ekkert við því að segja. Það er ekkert auðvelt að fá leiki hingað heim og Færeyingar voru til í koma og þeir leika svona. Annars hefur þetta verið frábær vika hjá okkur og mjög gott að fá strákana heim og kynnast þeim og æfa með þeim. Við getum greint og skoðað, ekki bara leikina heldur einnig æfingarnar og mætum galvaskir til leiks síðla í desember þegar æfingar hefjast fyrir EM,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik karla í samtali við handbolta.is í Laugardalshöll í kvöld.