Íslenska landsliðið í handknattleik kvenna kom til Stafangurs rétt eftir hádegið í dag eftir stutta og laggóða flugferð frá Gardemoen í nágrenni Óslóar. Þar með er vikudvöl liðsins í Lillehammer lokið. Framundan er fyrsti leikur á heimsmeistaramótinu á fimmtudaginn gegn Slóvenum í DNB-Arena í Stafangri.
Flautað verður til leiks klukkan 17. Eftir það taka við leikir við Ólympíumeistara Frakka á laugardaginn og Afríkumeistara Angóla á mánudag. Að leikjunum þremur loknum ræðast framhaldið, hvort íslenska landsliðið heldur til norðurhluta Jótlands eða til Niðaróss.
Æfing síðdegis
Eftir lendingu á flugvellinum í Sola í dag var rakleitt haldið til hótels í Stavangri en það mun vera í nágrenni við keppnishöllina. Ráðgert er að fara á æfingu síðdegis áður en snæddur verður kvöldverður.
Átján leikmenn skipa íslenska landsliðshópinn en auk þess eru með í för þjálfarar, sjúkraþjálfarar, læknir og liðsstjóri og fararstjóri.
Moustafa mætir
Heimsmeistaramótið verður formlega sett í DNB-Arena annað kvöld, miðvikudaginn 29. nóvember. Forseti Alþjóða handknattleikssambandsins, Hassan Moustafa mætir í norska olíubæinn og setur heimsmeistaramótið áður en fyrsti leikur mótsins, á milli Suður Kóreu og Austurríkis hefst. Síðar sama kvöld leiða Noregur og Grænland saman kappa sína.
HM-hópurinn
Markverðir:
Elín Jóna Þorsteinsdóttir, EH Aalborg (48/1).
Hafdís Renötudóttir, Valur (49/2).
Aðrir leikmenn:
Andrea Jacobsen, Silkeborg-Voel (44/69).
Berglind Þorsteinsdóttir, Fram (15/5).
Díana Dögg Magnúsdóttir, BSV Sachsen Zwickau (43/54).
Elín Rósa Magnúsdóttir, Val (8/13).
Elísa Elíasdóttir, ÍBV (7/3).
Hildigunnur Einarsdóttir, Val (98/112).
Jóhanna Margrét Sigurðardóttir, Skara HF (7/8).
Katla María Magnúsdóttir, Selfoss (3/0).
Katrín Tinna Jensdóttir, Skara HF (6/1).
Lilja Ágústsdóttir, Val (13/6).
Perla Ruth Albertsdóttir, Selfossi (37/57).
Sandra Erlingsdóttir, Tus Metzingen (25/111).
Sunna Jónsdóttir, ÍBV (79/60).
Thea Imani Sturludóttir, Val (67/131).
Þórey Anna Ásgeirsdóttir, Val (36/30).
Þórey Rósa Stefánsdóttir, Fram (126/366).
Starfsfólk:
Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari.
Ágúst Þór Jóhannsson, aðstoðarþjálfari.
Hlynur Morthens, markvarðaþjálfari.
Hjörtur Hinriksson, styrktarþjálfari.
Þorbjörg J. Gunnarsdóttir, liðsstjóri.
Jóhann Róbertsson, læknir.
Jóhanna Gylfadóttir, sjúkraþjálfari.
Tinna Jökulsdóttir, sjúkraþjálfari.
Kjartan Vídó Ólafsson, fjölmiðlatengiliður.
Róbert Geir Gíslason, fararstjóri.