Síðast mættust kvennalandslið Íslands og Frakklands 29. september 2019 í undankeppni EM 2020. Leikurinn fór fram á Ásvöllum og lauk með sigri Frakka, 23:17, sem voru þremur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 13:10. Þetta var annar leikur landsliðsins undir stjórn Arnars Péturssonar. Hann tók við landsliðinu sumarið 2019. Karen Knútsdóttir varð markahæst í íslenska liðinu með sex mörk. Íris Björk Símonardóttir fór á kostum í íslenska markinu í sínum síðasta landsleik.
Viðureignin við Frakka á Ásvöllum reyndist vera sú síðasta hjá íslenska landsliðinu í undankeppninni. Snemma árið eftir fór covid eins og eldur í sinu um heimsbyggðina og varð þess m.a. valdandi að aðrir leikir í undankeppninni voru strikaðir út.
Króatar og Frakkar komst í lokakeppnina en Ísland og Tyrkland sátu eftir. Franska landsliðið vann síðan til silfurverðlauna á EM sem Danir héldu fyrir luktum dyrum í desember 2020 og Króatar höfnuðu í þriðja sæti og komu flestum á óvart.
Fjórum dögum fyrir leikinn á Ásvöllum steinlá íslenska landsliðið, 29:8, fyrir Króötum í Osijek í undankeppninni í fyrsta leiknum eftir að Arnar tók við. Síðan hefur íslenska landsliðinu vaxið jafnt og þétt fiskur um hrygg.