Íslenska landsliðið í handknattleik kvenna kvaddi Stafangur í bítið í morgun. Flogið var til Kastrup og þaðan til Álaborgar. Við flugstöðina í Álaborg beið rúta eftir hópnum og flutti hann áfram til gististaðar í Frederikshavn, hafnarbæjar á norð austurhluta Jótlands.
Fyrsti leikur íslenska landsliðsins í keppninni um forsetabikarinn, 25. sætið, verður á fimmtudaginn klukkan 17 gegn næstu nágrönnum okkar frá Grænlandi. Sami leiktími verður einnig á laugardaginn gegn Paragvæ og á mánudaginn þegar Kínverjar verða að öllum líkindum andstæðingur íslenska landsliðsins.
Vitanlega er miðað við klukkuna heima á Íslandi.
Það skýrist betur í kvöld hvort Kínverjar eða Senegalar reka lestina í A-riðli. Þjóðirnar mætast í uppgjöri í Gautaborg. Kínverska liðið þarf á sigri að halda en Senegal nægir jafntefli.
Ekki æft í dag
Eftir komuna til Frederikshavn í dag fengu leikmenn frí a.m.k frá skipulögðum æfingum, að sögn Arnars Péturssonar landsliðsþjálfara. Leikmenn gátu ráðstafað tíma sínum að vild.
Til stendur að leikmenn landsliðsins fari saman út að borða í Frederikshavn í kvöld, fái tilbreytingu frá hótelmatnum sem vill verða leiðigjarn þótt staðgóður sé í flestum tilfellum.
Handbolti.is er kominn til Frederikshavn og fylgir íslenska landsliðinu til loka mótsins á miðvikudaginn í næstu viku þegar leikið verður um sæti í forsetabikarkeppninni.