„Við komumst aldrei almennilega á fulla ferð í leiknum. Ég er fyrst og fremst glöð með að vinna enda á maður alltaf að vera þakklátur fyrir að vinna leiki sem maður tekur þátt í hvernig sem frammistaðan er,“ sagði Sunna Jónsdóttir fyrirliði íslenska landsliðsins í samtali við handbolta.is eftir sigur á landsliði Paragvæ í annarri umferð keppninnar um forsetabikarinn á heimsmeistaramótinu í handknattleik í Frederikshavn í kvöld, 25:19.
Komumst aldrei í takt
„Margt sem við getum gert mikið, mikið betur en við gerðum að þessu sinni. Á móti kemur að lið Paragvæ leikur öðruvísi handbolta sem getur verið erfitt að eiga við. Leikmenn eru snöggir og nýta sér mjög vel breiddina á leikvellinum. Okkur tókst aldrei að komast í takt við leikinn,“ sagði Sunna sem skoraði eitt mark og var föst fyrir í miðju varnarinnar að vanda.
Drögum lærdóm
Spurð hvað megi læra af þessu leik svaraði Sunna að vafalaust hefði verið hægt að taka fleiri langskot. „Við förum vel yfir þessa frammistöðu áður en kemur að leiknum við Kína á mánudaginn.
Við vorum ekki alveg á okkar degi að þessu sinni en samt sem áður unnum við og með það eigum við að vera ánægðar,“ sagði Sunna Jónsdóttir fyrirliði.
Sigur er allt af sigur en úff, þetta var mjög ljótt
HM kvenna ´23: Forsetabikar: leikir, úrslit, staðan
Sigur á Paragvæ eftir mikinn barning