„Við höfum farið ítarlega yfir þrjá leiki með Kongóliðinu á mótinu og komum mjög vel búin til leiks,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson aðstoðarþjálfari kvennalandsliðsins sem hefur m.a. haft þann starfa að liggja yfir upptökum andstæðinga íslenska landsliðsins á heimsmeistaramótinu í handknattleik. Í kvöld stendur fyrir dyrum síðasti leikur Íslands á mótinu, úrslitaleikur við Afríkulið Kongó sem vann hinn riðil forsetakeppninnar. Leikurinn hefst klukkan 19.30.
Hávaxin hörku skytta
„Þær spila á mjög háu tempói, eru afar hraðar og með eina mjög hávaxna hægri handar skyttu [195 sentímetrar]. Hún er hörkuskytta. Síðan eru margar þeirra mjög sprækar maður á móti manni og spila af talsverðum hraða og leggja ríka áherslu á hraðaupphlaup en eru á móti mjög hægar til baka. Það eigum að geta nýtt okkur. Þetta er sannarlega verðugur andstæðingur,“ sagði Ágúst Þór íbyggin á svip þegar handbolti.is hitti hann að máli á hóteli landsliðsins í Frederikshavn í gær.
Ekkert síðri en aðrir andstæðingar
„Þetta er alls ekkert síðra lið en þau sem við höfum áður mætt í keppninni um forsetabikarinn. Kongóliðið tapaði aðeins með tíu marka mun fyrir Tékklandi í riðlakeppni HM og var síðan í hörkuleik við Argentínu nánast til síðustu mínútu. Við verðum að búa okkur mjög vel undir leikinn og taka hann mjög alvarlega,“ sagði Ágúst Þór sem fylgt hefur landsliðinu eftir frá því að það fór út til Noregs 22. nóvember og starfað með Arnari Péturssyni landsliðsþjálfara og Hlyni Morthens markvarðaþjálfara.
Ná góðu floti á boltann
„Nær yfirleitt leikur Kongóliðið sex núll vörn en fyrir hefur þó komið að það bregði sér í fimm einn vörn. Við verðum að ná góðu floti á boltann, ná aukasendingunum og láta þær sem minnst stöðva okkur. Okkar leikkerfi eiga klárlega að virka mjög vel gegn varnarleik Kongóliðsins,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson aðstoðarþjálfari kvennalandsliðsins í handknattleik.
Beint úr Arena Nord
Úrslitaleikur Íslands og Kongó um forsetabikarinn í handknattleik kvenna hefst klukkan 19.30 í kvöld í Arena Nord í Frederikshavn. Handbolti.is er í Arena Nord og fylgist með leiknum í textalýsingu og birtir viðtöl í leikslok.