Þýski markvörðurinn Jonas Maier hefur samið til hálfs þriggja árs við Hörð á Ísafirði eftir því sem fram kemur í tilkynningu á Facebook-síðu Handknattleiksdeildar Harðar. Maier verður væntanlega gjaldgengur með Ísafjarðarliðinu þegar það leikur næst í Grill 66-deildinni 3. febrúar á næsta ári.
Meier er þrautreyndur markvörður sem víða hefur komið við á síðasta rúma áratug en hann verður þrítugur 12. janúar nk.
Meier hefur á þessum tíma leikið Rhein-Neckar Löwen, TBV Lemgo, TVB 1898 Stuttgart, SG BBM Bietigheim, Handball Sport Verein Hamburg, HSG Nordhorn-Lingen og nú síðast hjá DJK Rimpar Wölfe. Einnig var Meier markvörður Kadetten Schaffhausen frá 2013 til 2015 og varð meistari í Sviss með liði félagsins. Meier varð Evrópumeistari með U18 ára landsliði Þýskalands sumarið 2012.
Auk þess að leika með Herði verður Meier þjálfari markvarða félagsins í yngri flokkum. Bundnar eru miklar vonir við komu Meier, lesi handbolti.is rétt úr tilkynningu Harðar, handknattleiksdeildar.
Staðan og næstu leikir í Grill 66-deildum.