Íslenska kvennalandsliðið vann stórsigur á Grikkjum, 31:19, í annarri umferð forkeppni heimsmeistaramótsins í handknattleik í A1 Arena SC Boris Trajkovski-íþróttahöllinni í Skopje í kvöld. Þar með bíður íslenska landsliðsins úrslitaleikur við Litháen um annað sæti riðilsins á morgun og þar með sæti í umspilsleikjum um HM. Litháar töpuðu í dag fyrir Norður-Makedóníu, 31:21. Viðureign Íslands og Litháen hefst klukkan 18 á morgun.
Norður-Makedónía hefur fjögur stig og er öruggt um sæti í umspilsleikjunum. Ísland og Litháen hafa tvö stig hvort og Grikkir eru án stiga eftir tvo tapleiki.
Íslenska landsliðið hafði yfirburði frá upphafi í dag. Frábær varnarleikur sló gríska liðið algjörlega út af laginu. Grikkir komust hvorki lönd né strönd og skoruðu til að mynda aðeins sjö mörk í fyrri hálfleik en það íslenska 15. Ísland lék 5/1 vörn með Hörpu Valey Gylfadóttur sem fremsta mann. Hún náði að riðla mjög sóknarleik gríska liðsins með þeim afleiðingum að leikmenn liðsins vissu á köflum ekki sitt rjúkandi ráð.
Upphafskafli síðari hálfleiks var frábær af hálfu íslenska liðsins. Það gaf gríska liðinu strax til kynna að það fengi ekki að komast inn í leikinn. Munurinn var kominn upp í 11 mörk, 20:9, þegar tæplega tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik og úrslitin ráðin.
Fjórtán af sextán leikmönnum íslenska liðsins tóku þátt í leiknum í dag sem var afar jákvætt. Þar með var hægt að dreifa álaginu vel fyrir úrslitaleikinn annað kvöld. Sunna Jónsdóttir og Saga Sif Gísladóttir voru þær einu sem tóku ekkert þátt í viðureigninni en mikið mæddi á Sunnu í gær í viðureigninni við Norður-Makedóníu.
Mörk Íslands: Rut Arnfjörð Jónsdóttir 7/4, Ásdís Guðmundsdóttir 4, Lovísa Thompson 4, Ragnheiður Júlíusdóttir 4, Sigríður Hauksdóttir 4, Birna Berg Haraldsdóttir 2, Eva Björk Davíðsdóttir 2, Harpa Valey Gylfadóttir 2, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 1, Tinna Sól Björgvinsdóttir 1.
Varin skot: Elín Jóna Þorsteinsdóttir 7, Katrín Ósk Magnúsdóttir 3.
Gangur leiksins: 1:0, 1:2, 5:2, 7:3, 10:4, 12:5, 14:6, 15:7, 18:7, 20:9, 20:11, 22:13, 25:14, 25:16, 27:16, 28:17, 28:19, 31:19.