- Auglýsing -
- Sænski línumaðurinn Jesper Nielsen hefur samið við danska meistaraliðið í Aalborg Håndbold og flytur til Danmerkur í sumar þegar núverandi samning hans við Rhein-Neckar Löwen rennur sitt skeið á enda. Nielsen er nýjasta trompið í styrkingu Álaborgarliðsins en fyrir nokkru samdi félagið við Mikkel Hansen, Mads Mensah og Kristian Björnsen. Fleiri leikmenn kunna að vera á leiðinni í Limafjörðinn á næstu mánuðum.
- Annar sænskur handknattleiksmaður flytur sig um set í sumar. Alfred Jönsson hefur ákveðið að yfirgefa Hannover-Burgdorf í lok leiktíðar og ganga til liðs við Skjern í Danmörku og hlaupa í skarðið fyrir Elvar Örn Jónsson sem fer til Melsungen.
- Ivano Balic tekur við sem aðstoðarþjálfari karlalandsliðs Króatíu af Igor Vori sem verður íþróttastjóri króatíska handknattleiksambansins.
- Uros Zorman sem um þessar mundir þjálfar RK Trimo Trebnje í heimalandi sínu, Slóveníu, mun vera undir smásjá Meshkov Brest í Hvíta-Rússlandi en forráðamenn félagsins leita nú að þjálfara fyrir liðið til að taka við þjálfun í sumar.
- Aitor Arino, vinstri hornamaður Barcelona, sleit krossband um helgina. Þar með er vinstri hornastaðan orðin þunnskipuð hjá liðinu en hinn leikmaðurinn í þessari stöðu hjá félaginu, Casper U. Mortensen, er og hefur verið frá keppni vegna meiðsla í hné.
- Ákveðið hefur verið að keppni í 2.deild karla og kvenna og deildunum þar fyrir neðan í danska handboltanum verði hætt frá og með þessari viku. Þrátt fyrir eitthvað hafi dregið úr smitum í Danmörku hefur kórónuveiran sett keppni í neðri deildunum svo úr skorðum að réttast er talið að láta gott heita á þessari leiktíð. Tvær efstu deildir karla og kvenna verða áfram við leik.
- Margt er skrítið í kýrhausnum segir einhversstaðar og væntanlega má segja það um samning handknattleiksmannsins Mohamed Darmoul. Hann hefur verið leigður í fjóra daga frá Étoile Sportive du Sahel H.C. í heimalandi sínu, Túnis, til Mudhar Club í Sádi-Arabíu til þess að leika í úrslitakeppni um meistaratitilinn.
- Auglýsing -