FH færðist upp í þriðja sæti Grill 66-deildar kvenna í handknattleik með afar öruggum sigri á neðsta liðinu, Bersekjum, 27:14, í 10. umferð deildarinnar í Kaplakrika í gærkvöld. FH-ingar voru fimm mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 12:7. Heldur jókst forskotið þegar kom fram í síðari hálfleik.
FH-ingar hafa þar með 14 stig að loknum 10 leikjum, eru stigi fyrir ofan Víking en tveimur stigum á eftir Gróttu sem er í öðru sæti. Selfoss hefur sem fyrr nokkra yfirburði í efsta sæti og hefur ekki tapað stigi. Nýliðar Berserkja hafa átt erfitt uppdráttar og eru enn án stiga.
Tveir leikir verða í deildinni í kvöld. Grótta tekur á móti HK og ungmennalið Vals sækir Fjölni heim.
Mörk FH: Emilía Ósk Steinarsdóttir 5, Karen Hrund Logadóttir 5, Ena Car 4, Katrín Ósk Ástþórsdóttir 4, Ingibjörg Karlsdóttir 3, Dagný Þorgilsdóttir 2, Thelma Dögg Einarsdóttir 2, Brynja Katrín Benediktsdóttir 1, Lara Zidek 1.
Varin skot: Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir 4, Sigurdís Sjöfn Freysdóttir 4.
Mörk Berserkja: Jóhanna Helga Jensdóttir 5, Ósk Hind Ómarsdóttir 3, Thelma Lind Victorsdóttir 3, Auður Margrét Pálsdóttir 1, Brynhildur Eva Thorsteinson 1, Gerður Rún Einarsdóttir 1.
Varin skot: Sólveig Katla Magnúsdóttir 8, María Ingunn Þorsteinsdóttir 1.
Staðan og næstu leikir í Grill 66-deild kvenna.