„Ég er sáttur við að fá Slóvena auk þess sem það er kostur að fá útileikinn fyrst,“ sagði Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik, í samtali við handbolta.is um niðurstöðuna af drætti í umspilsleikina fyrir heimsmeistaramótið en dregið var í gær eins og kom fram á handbolta.is.
„Slóvenar er með hörkugott lið þótt þeir séu um þessar mundir í neðri hluta þeirra liða sem eru í allra fremstu röð. Liðið hefur margra frábæra leikmenn sem leika með liðum í Meistardeildinni,“ sagði Arnar og benti m.a. að Slóvenar hafi leikið tvo leiki um nýliðna helgi við heimsmeistara Hollendinga í Hollandi. Slóvenar hafi tapað báðum leikjum en átt í fullu tré við heimsmeistarana og t.d. aðeins tapað síðari leiknum með tveimur mörkum 30:28.
„Leikirnir verða spennandi verkefni fyrir okkur. Það verður gaman að sjá hvar við stöndum á móti liðum í efsta styrkleikaflokki og hvað þarf að gera í framhaldinu,“ sagði Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik.
Reiknað er með að landsliðið komi saman fljótlega eftir að leikjum átta liða úrslita Coca Cola-bikarsins verður lokið 11. apríl. Fyrri viðureignin við Slóvena fer fram annað hvort 16. eða 17. apríl og sú síðari 20. eða 21. apríl á Íslandi. Líklegt er að heimaleikurinn fari fram í Schenkerhöllinni á Ásvöllum. Leikdagar liggja fyrir áður en vikan verður á enda.