„Þetta er rúmlega svekkjandi. Það er mjög erfitt að kyngja þessu tapi,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik við handbolta.is þegar hann gekk af leikvelli að loknu tveggja marka tapi fyrir Þjóðverjum í milliriðlakeppni Evrópumótsins í handknattleik karla, 26:24, í Köln.
„Við vorum í dúndurleik allan tímann og lékum vel. Það var gaman að sjá strákana. Mikið líf í þeim, barátta og hjarta. Varnarlega vorum við frábærir og Viktor Gísli mjög góður í markinu. Mörkin í leiknum voru ekki mörg vegna þess að bæði lið voru með frábærar varnir og mjög góða markverði. Sóknarleikur okkar var fínn. Því miður þá skilaði þetta ekki stigi, bara svekkelsi,“ sagði Snorri Steinn.
„Ég gat ekki beðið um meira frá strákunum en það sem þeir gerðu í kvöld. Þeir skildu allt eftir á vellinum. Það að menn klúðri færum er því miður hluti af leiknum og nokkuð sem hefur fylgt okkur í gegnum mótið. Enginn er að leika sér að því klúðra færum,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í samtali við handbolta.is í kvöld.