- Landsliðsmaðurinn í handknattleik, Gísli Þorgeir Kristjánsson, fer í aðgerð á vinstri öxl hjá lækni í Zürich í Sviss í dag. Hann staðfesti þetta við handbolta.is í gær. Gísli Þorgeir varð fyrir því óláni að fara úr axlarlið í viðureign Magdeburg og Füchse Berlin í þýsku 1. deildinni sunnudaginn 21. mars.
- Króatinn Josip Vidovic sem leikið hefur undanfarin ár með ÖIF Arendal hefur skrifað undir þriggja ára samning við norsku meistarana Elverum. Vidovic er þrítugur miðjumaður og hefur verið einn fremsti leikmaður norsku úrvalsdeildarinnar síðustu árin.
- Danski landsliðsmaðurinn Simon Hald gat ekki leikið með félögum sínum í Flensburg á sunnudaginn þegar þeir mættu Magdeburg í toppslag þýsku 1.deildarinnar. Nokkru fyrir leikinn fann Hald til óþæginda vegna hjartsláttaróreglu. Hann hefur síðan verið í rannsóknum þessu tengdu. Haldbær skýring á hjartsláttartruflununum hefur ekki fengist og verður Hald áfram undir eftirliti.
- Handknattleiksliðið Málaga frá Spáni sem átti að mæta Val á fyrstu stigum EHF-bikar kvenna í haust sem leið er komið í úrslit í keppninni. Málaga mætir Lokomotiv Zagreb í úrslitaleikjum keppninnar sem nú nefnist EHF-bikarinn en áður bar heitið Áskorendabikarkeppni Evrópu. Málaga vann Atletico Guardes, 44:37, í tveimur leikjum í undanúrslitum.
- Auglýsing -