Oddur Gretarsson og félagar í Balingen máttu þola sárt tap á heimavelli fyrir Göppingen í þýsku 1. deildinni í handknattleik í kvöld, 31:30. Tim Kneule skoraði sigurmark Göppingen þegar fimm sekúndur voru til leiksloka. Oddur skoraði fimm mörk í leiknum, þar af þrjú úr vítaköstum.
Gunnar Steinn Jónsson skoraði ekki mark fyrir Göppingen sem áfram er í hópi efstu liða meðan Balingen-menn eru óþægilega nærri fallsæti og hefði þegið stig með þökkum í kvöld. Stöðuna í deildinni er að finna neðst.
Göppingen var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 16:14. Oddi og félögum tókst að snúa leiknum sér í hag framan af fyrri hálfleik og ná tveggja marka forskoti, 24:22, þegar síðari hálfleikur var hálfnaður. Eftir það má heita að jafnt hafi verið á öllum tölum.
Guðmundur Þórður Guðmundsson, þjálfari, og leikmenn Melsungen fögnuðu góðum sigri á heimavelli þegar þeir tóku á móti Tusem Essen, 35:31. Essen var marki yfir í hálfleik, 14:13, en varð að gefa eftir í síðari hálfleik. Arnar Freyr Arnarsson skoraði ekki mark en tók hressilega á í vörninni og var í tvígang vísað af leikvelli, í tvær mínútur í hvort skipti.
Ýmir Örn Gíslason stóð að vanda í ströngu í vörn Rhein-Neckar Löwen þegar liðið krækti í tvö stig á heimavelli þegar Nordhorn kom í heimsókn, 30:26. Ýmir Örn skoraði eitt mark og varð tvisvar að bíta í það súra epli að vera vísað af leikvelli.
Füchse Berlin – Ludwigshafen 28:21.
Staðan:
Flensburg 36(20), Rhein-Neckar Löwen 36(25), Kiel 35(20), Magdeburg 34(23), Göppingen 33(23), Füchse Berlin 29(24), Bergischer 27(22), Melsungen 25(21), Wetlzar 24(23), Leipzig 23(23), Lemgo 22(21), Erlangen 22(23), Stuttgart 21(24), Hannover-Burgdorf 18(22), GWD Minden 16(24), Balingen 15(24), Nordhorn 12(24), Essen 11(24), Ludwigshafen 11(24), Coburg 8(24).